146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

gengisþróun og afkoma útflutningsgreina.

[14:27]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil þakka málshefjanda fyrir umræðuna. Hún er brýn og þörf, enda snýst hún um eitt af grundvallaratriðum hagstjórnarinnar sem er peningastefnan. Hvar sem við stöndum í pólitík er ljóst að hér þarf að eiga sér stað yfirveguð umræða um framtíðarpeningastefnu Íslands. Hér þurfa að eiga sér stað alvöruaðgerðir til framtíðarstefnumótunar. Við þurfum á peningastefnu að halda sem snýst ekki eingöngu um verðbólgumarkmið heldur um langtímaáætlun og enn meiri aga í hagstjórninni, peningastefnu sem snýst ekki um skammtímalausnir heldur um að verja íslenskt efnahagslíf fyrir áföllum og sveiflum sem koma alltaf verst niður á almenningi og kjörum hans. Hagkerfi okkar er drifið áfram af auðlindum og útflutningi, þá helst sjávarútvegi, orkubúskap og ferðaþjónustu.

Útflutningsverðmæti Íslands hækkaði um 17% árin 2014–2016 í hlutfalli við útflutningsverð helstu viðskiptalanda. Þessi vöxtur er drifinn áfram af gríðarlegum vexti í ferðaþjónustu sem óx um 44% í fyrra og hefur ríflega fjórfaldast síðan árið 2010. Sá gríðarlegi vöxtur hefur rutt til hliðar öðrum útflutningsgreinum með því m.a. að þrýsta upp genginu.

Ein leið til að mæta gengissveiflum er að fylgja fordæmi Norðmanna og setja á fót hér auðlindasjóð sem m.a. myndi verða til sveiflujöfnuðar. Hugmyndir um auðlindasjóð eru ekki nýjar af nálinni hér á landi og voru vel á veg komnar á teikniborði vinstri stjórnarinnar árin 2009–2013 og ég sé ekki betur en hugmyndir um sveiflujafnandi stöðugleikasjóð sé meira að segja í finna stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar. Ég myndi gjarnan vilja fá að heyra hjá hæstv. fjármálaráðherra hvar stofnun stöðugleikasjóðs er á vegi stödd. Gæti hann reifað hugmynd sínar um það? Eru einhverjar fleiri aðgerðir í farvatninu hjá hæstv. fjármálaráðherra til að koma á meiri efnahags- og gengisstöðugleika, því að það þarf aðgerðir, ekki bara að treysta á sjálfvirka sveiflujafnara?

Frú forseti. Það er ljóst að of mikil spenna og sveiflur í hagkerfinu gagnast nefnilega fólkinu sem á mestar eignir og flest verðbréf. Það er ekki meiri hluti þjóðarinnar, heldur á 10% Íslendinga (Forseti hringir.) 64% allra eigna. Þessi tekju- og eignahæsti hópur hagnast í niðursveiflunum á genginu og er sá hópur sem hagnast í uppsveiflunum (Forseti hringir.) vegna þess að hann á alltaf fjármuni til þess að leggja til hliðar og ávaxta.