146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

gengisþróun og afkoma útflutningsgreina.

[14:30]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. málshefjanda fyrir þetta frumkvæði. Þessi umræða er auðvitað löngu tímabær. Að mínu mati er eitt allra stærsta verkefni stjórnmálanna á þessu kjörtímabili að láta ekki eins og vandamálið með krónuna komi okkur alveg á óvart. Við vitum að krónan er kenjótt eins og kráka en við þekkjum söguna og vitum auðvitað hversu ótúrreiknanleg krónan er. Við hefðum auðvitað getað sagt: Við áttum að vera undir þetta búin.

Stjórnmálamenn hafa ekki kannski viljað horfast í augu við þetta viðfangsefni og frekar farið í smáskammtalækningar, en nú duga þær ekki lengur. Þess vegna tel ég mjög brýnt að það verkefni sem peningamálastefnunefnd hefur verið fengið verði unnið hratt og vel þar og að tillögum verði skilað sem ráðast að rótum vandans í peningamálastefnu. Það er ekki í boði að sú nefnd skili tillögum um óbreytt ástand.

Hvað eigum við að gera? Við eigum að vinna að langtímalausn. Við megum ekki festast í hjólförum smáskammtalækninganna. Við verðum náttúrlega að horfast í augu við mjög biturt ástand víða hjá minni vinnslum, útgerðarfyrirtækjum víða um land, en síðast en ekki síst núna uppi á Skaga. Að sjálfsögðu eigum við að höfða til samfélagslegrar ábyrgðar, en það er heldur ekki hægt að skýla sér á bak við gengismuninn í krónunni þegar teknar eru ákvarðanir er snerta heilt byggðarlag.

Það sem skiptir mestu máli fyrir útflutningsgreinarnar allar er að við verðum að tryggja fyrirtækjunum okkar, við þurfum að tryggja neytendunum, við þurfum að tryggja launþegum miklu stöðugra umhverfi en við búum við núna. Þannig getum við komið í veg fyrir hörmungar eins og eiga sér nú stað m.a. uppi á Skaga. Við sjáum það líka að vissu leyti í ferðaþjónustunni. Þess vegna er stærsta verkefni okkar stjórnmálamanna að takast á við þennan vanda strax en ekki að (Forseti hringir.) koma með tillögur sem eru bæði gamaldags og gera í rauninni ekkert annað en að setja skammtímaplástur á sárið.