146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

gengisþróun og afkoma útflutningsgreina.

[14:32]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Það hefur verið rætt um þessi mál hér í þingsal mjög lengi. Það er jákvætt að búið sé að setja á fót peningastefnunefnd en mér finnst svolítið leiðinlegt að sú nefnd var sett án samráðs við minni hlutann. Það þýðir að það tekur lengri tíma að koma því sem kemur frá þeirri nefnd í gegnum þetta þing af því að þeir flokkar sem ættu að hafa einhverja aðkomu að þessu fengu ekki að setjast við borðið. Mér finnst mjög leiðinlegt að ríkisstjórnin, sem var að hluta til byggð á væntingum um meiri samvinnu, meira gagnsæi, öðruvísi vinnubrögð, byrji á því að sýna okkur í minni hlutanum fingurinn með þessari ákvörðun.

Einu sinni vorum við með ofsalega sterka krónu, ég man eftir því. Mig minnir að það hafi verið 80 krónur á móti dollara. Skyndilega veiktist hún mjög — hún veiktist rosalega á skömmum tíma — og það er ekki hægt að bjóða þeim sem stunda inn- og útflutning upp á svona umhverfi. Ég vil því skora á hæstv. fjármálaráðherra að hafa annað verklag næst þegar fara á í miklar aðgerðir til framtíðar og standa við loforðin sem voru sett fram í aðdraganda kosninga um öðruvísi vinnubrögð og sýna það vinsamlegast í verki til að við getum tekið á stórum málum sem varða alla en ekki bara útvaldan minni hluta sem segist vera meiri hluti.