146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

gengisþróun og afkoma útflutningsgreina.

[14:35]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Herra forseti. Það er rétt hjá málshefjanda að mörg fyrirtæki í samkeppnisrekstri glíma nú við vanda í útflutningi vegna sterks gengis krónunnar. Ég vona að við getum þó öll verið sammála hér í þessum sal um að það væri hreint glapræði að velta fyrir sér að leggja núna auknar álögur á þessar greinar, sjávarútveg og ferðaþjónustu, með þeim hætti sem stundum er talað úr ræðustól.

Við erum að verða vitni að algjörum umskiptum í íslensku efnahagslífi, í íslensku atvinnulífi. Þjónustujöfnuður á seinasta ári var jákvæður um 260 milljarða. Á síðustu fjórum árum hefur hann verið jákvæður um 740 milljarða, sem er svipað eða litlu lægra en ríkisútgjöld eru áætluð á þessu ári. Það eru gríðarlegar fjárhæðir. Þetta er ástæðan fyrir því að íslenska krónan hefur verið að styrkjast og það hefur valdið þeim erfiðleikum sem við ræðum hér. En við getum hins vegar ekki nálgast viðfangsefnið þannig og talað um málið eins og íslenska krónan sé eini gjaldmiðillinn í heiminum sem sveiflast. Evran gerir það, dollarinn, pundið o.s.frv. (LE: Fínt að setja …) Ja, það, við gerum það alveg örugglega einhvern tímann, en það er alveg ljóst að við þurfum að endurskoða peningastefnuna, það er rétt.

Það er rangt að Seðlabankinn hafi eitt markmið, verðbólgumarkmið. Það á að vera gengismarkmið og Seðlabankinn hefur aldrei haft aðra eins burði til þess að tryggja hér að gengismarkmið nái fram. Fjármálastöðugleikinn er þriðja markmiðið sem Seðlabankinn á að vinna að (Forseti hringir.) og auk þess á Seðlabankinn að tryggja að vaxtamunur milli Íslands og helstu viðskiptamynta sé ekki óeðlilega hár eins og hann er nú í dag.

(Forseti (TBE): Forseti biður þingmenn um að virða ræðutíma.)