146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

gengisþróun og afkoma útflutningsgreina.

[14:39]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Það er kostnaðarsamt fyrir þjóðina að halda uppi minnsta sjálfstæða gjaldmiðli í heimi. Einu rökin sem sett eru fram fyrir því að halda honum eru þau að með krónunni sé mögulegt að fella gengið og rýra kjör launafólks án þess að semja við það sérstaklega. Það getur ekki talist kostur fyrir almenning en ágætt fyrir sum fyrirtæki og fyrir stjórnmálamenn sem geta falið mistök sín með því að fella gengið.

Ef okkur á að vegna vel í framtíðinni þarf meira samstarf Íslands á alþjóðavísu og stöðugra umhverfi fyrir fjölbreytt atvinnulíf. Það eru gríðarlegir hagsmunir undir. Við höfum siglt ólgusjó vegna krónunnar sem leiðir okkur upp í hæstu hæðir og aftur niður í öldudali. Þetta hefur ekki bara áhrif á rekstur fyrirtækja heldur líka á rekstur heimila sem þurfa að bera kostnaðinn af himinháum vöxtum og verðtryggingu.

Erfitt er að sjá fyrir sér heilbrigða þróun fjölbreytts atvinnulífs með alþjóðlegum tengingum sem er eftirsótt fyrir kraftmikil og vel menntuð ungmenni í því umhverfi sem krónan skapar. Þjóð sem sér fram á staðnað atvinnulíf og sem getur ekki skapað aðstæður fyrir krefjandi verkefni fyrir unga fólkið sitt er í miklum vanda. Með krónuna sem gjaldmiðil er líklegt að eins fari fyrir unga fólkinu og þekkingarfyrirtækjum, að þau kjósi að vaxa í öðrum löndum. Það er framtíðarsýn sem ekki verður unað við.

Samspil vaxta, verðbólgu og gengis yrði með öðrum hætti með evru en með krónu. Vaxtaskilyrði fyrirtækja, ekki síst í nýjum atvinnugreinum, og framtíðarmöguleikar ungmenna hér á landi færu batnandi. Líkur ykjust á því að þau vilji vera og vaxa á Íslandi. Til að halda þessum möguleikum opnum þurfum við að klára aðildaviðræður við Evrópusambandið og bera niðurstöðuna undir þjóðina.

Að fella gengið eða að veikja það handvirkt, svo að útflutningsfyrirtækjum og ferðaþjónustu gangi betur en hagur almennings versni, er ekkert annað en skítaredding á ástandi sem er viðvarandi og óviðunandi með íslensku krónunni.