146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[15:10]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni þetta andsvar. Það er alveg rétt, sem þingmaðurinn rekur, að í sjálfu sér er ekkert áskilið í lögum um útgjaldaregluna. Það kom hins vegar mjög skýrt fram, í áliti meiri hluta fjárlaganefndar á síðasta kjörtímabili, að æskilegt væri að hafa slíkt viðmið. Það er fyrst og fremst á þeirri forsendu sem fjármálaráðherra setti útgjaldaregluna eða -þakið inn í stefnuna og rekur það í þingmálinu. Hvers vegna gerum við það? Jú, ég held að það sé einfaldlega skynsamlegt að við setjum okkur markmið um útgjöld svo að við séum ekki að þenja þau í hagsveiflunni þegar hún er jákvæð. En rétt eins og þingmaður bendir á getur það líka unnið gegn okkur þegar samdráttur verður. En ég held að þessi útgjaldaregla, eins og hún er fram sett hér, eigi ekki að skapa okkur vandræði á grundvelli þeirrar stefnu sem við ræðum.