146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[15:15]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanninum hennar andsvar. Já, það er rétt að við ræðum í nefndaráliti okkar um nauðsyn þess að við tökum saman fjárfestingaráætlun til lengri tíma og horfum líka til annarra fjármögnunarleiða í nauðsynlegum úrbótum á innviðum okkar, sem við erum farin að temja okkur að kalla svo, eins og fjárfestingu í vegakerfi, sem ég geri sérstaklega að umfjöllunarefni. Það er t.d. sú leið að fara í slíkar fjárfestingar í samstarfi við stofnfjárfesta eins og lífeyrissjóði. Það er líka til sú leið að við endurskoðum ýmsa aðra þætti í ríkisrekstri okkar og rekstri ýmissa annarra fyrirtækja í eigu ríkisins, hvort við getum ekki losað út úr þeim fjármagn eða fengið með okkur samstarfsaðila þar til að losa um fjármagn til að komast í innviðafjárfestingu. Ég vek athygli á að við erum að auka útgjöld til fjárfestinga í samfélagi okkar í fjármagnsstefnunni, m.a. með auknum ríkisútgjöldum sem eru í núgildandi fjárlögum.