146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[15:19]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í áliti meiri hluta nefndarinnar er fjallað um þróun skulda. En í lögum um opinber fjármál segir, með leyfi forseta, að þættir um „umfang, afkomu og þróun eigna, skulda og langtímaskuldbindinga opinberra aðila í heild og hins opinbera,“ eigi að vera í fjármálastefnunni.

Nú er fjármálastefnan sundurtætt hvað það varðar. Það er tekið út fyrir sviga hverjar eru skuldir ríkissjóðs en ekki lífeyrisskuldbindingar líka og skuldir fyrirtækja almennt. Aftast í nefndarálitinu er talað um að skuldir hins opinbera í heild sinni, að fyrirtækjum meðtöldum, séu áætlaðar rúmir 1.500 milljarðar en skuldalækkunin í lok 2022 er bara 66 milljarðar. Þetta finnst mér mjög undarlegt miðað við að stefnan, í rauninni er eina markmið hennar að lækka skuldir hins opinbera. Árangurinn er ætlaður 66 milljarðar. Mér finnst þetta svo lítið. (Forseti hringir.) Ég væri til í að fá að heyra dálítið betur hvernig annað en bara skuldir ríkissjóðs er hluti af þessu, (Forseti hringir.) svo sem langtímaþróun lífeyrisskuldbindinga og fyrirtækja hins opinbera.