146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[15:20]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi að svari mínu við þessu ágæta andsvari hv. þm. Björns Leví Gunnarssonar sem ég þakka honum fyrir vekja athygli á því að við bættum í nefndarálit okkar töflu með tölulegum upplýsingum á bak við þau gildi sem þingmálið byggir á, til þess að fylla betur upp í þá mynd og hvernig við getum talað um þetta. Ég ætla að vekja athygli á því að á stefnutímabilinu hækkar landsframleiðslan um allt að 31% samkvæmt þeirri spá sem hér undir liggur. Það er skuldahlutfall, eða opinberar skuldir sem hlutfall af landsframleiðslu, sem skiptir þá máli í þessu sambandi. Hitt vil ég þá segja og það kom berlega fram í meðferð nefndarinnar að við erum í ótrúlega þröngri stöðu í uppgreiðslu skulda á stefnutímabilinu og í raun og veru verða árin 2018, 2019 og 2020 okkur mjög erfið í þeim efnum.