146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[15:23]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég segi nú bara: Það þarf ekki að mínu viti kraftaverk til að þetta gangi eftir. Alls ekki. Áherslur fjármálastefnunnar eru um aðhald á fyrri hluta tímabilsins sem síðan er slakað á eins og við rekjum ágætlega í okkar nefndaráliti. Við aukum þar rými ríkissjóðs til athafna sem ég held að megi fjalla um í þessu sambandi þegar menn tala um spennitreyju og ef við bregðumst við forsendum höfum við framhlaðið stefnuna, ef svo má segja, með þessum hætti.

Ég held að við eigum líka að hafa opinn huga fyrir því að við getum gert ýmislegt öðruvísi í ríkisrekstrinum og þurfum ekki bara að horfa á skatttekjur hins opinbera til að komast í meiri fjárfestingar og verkefni sem vissulega er þörf á að ráðast í á mörgum sviðum. Við eigum líka að hafa opinn huga fyrir því að beita þar nýjum aðferðum eins og ég ræddi í fyrra andsvari, t.d. eins og annað rekstrarform eða annarri nálgun við rekstur flugstöðvar og fleiri þátta sem við höfum í okkar samfélagi og getum vel komist af með með öðrum hætti en við gerum í dag.