146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[15:59]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mig langar að spyrja hv. þingmann, vegna þess að hún var líka í fjárlaganefnd á síðasta kjörtímabili þegar lögin um opinber fjármál voru afgreidd þaðan og síðan samþykkt í þingsal, hvort henni hafi dottið í hug að stjórnvöld myndu ekki taka mark á ráðleggingum fjármálaráðs. Við eyddum töluverðum tíma í það í fjárlaganefndinni á síðasta kjörtímabili að fara yfir hlutverkið og töldum afar mikilvægt að hafa þarna sérfræðinga sem leggja myndu mat bæði á fjármálastefnuna og fjármálaáætlunina og að stjórnvöld gætu síðan endurskoðað á milli umræðna og tekið tillit til þess sem fjármálaráðið segði. Það er ekki gert. Ég get talað fyrir sjálfa mig, það kom mér mjög á óvart að ekki skyldi í neinu verið tekið mark á athugasemdum fjármálaráðs. Spurningin er þá: Til hvers er það?

Ég vil líka spyrja hv. þingmann: Telur hún ekki að farin sé öfug röð þegar fjármálastefnan er sett niður? Fyrst eru hagspárnar skoðaðar, síðan eru afkomumarkmiðin og skuldamarkmiðin sett niður, í staðinn fyrir að nota ríkisfjármálin til þess að hafa áhrif á efnahagsmálin og aðra stöðu en sett er niður af þeim sem spá fyrir um útkomuna miðað við að ekki verði gripið inn í þróunina.