146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[16:03]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég hefði haldið að það væri lágmarkskrafa að meiri hluti fjárlaganefndar hefði í nefndaráliti sínu rökstutt ítarlega hvers vegna ákveðið var að taka ekki tillit til athugasemda fjármálaráðs, en það er bara látið eins og fjármálaráð sé ekki til.

Hér í umræðunni hafa komið upp svolítið ruglandi skilaboð eftir því við hvern er talað á stjórnarheimilinu. Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hefur talað um að ekkert liggi á að selja bankana, það megi gera eftir tíu ár, eða guð má vita hvað, en formaður hv. fjárlaganefndar segir að stefnan sé að selja bankana á kjörtímabilinu. Maður veit ekki alveg hverjum maður á að trúa þarna, ráðherranum eða formanni fjárlaganefndar.

Það er annað sem ruglar mig mikið í allri þessari umræðu, það er það sem stendur í greinargerð með fjármálastefnunni. Ég vil lesa það upp, með leyfi forseta:

„Ætla má að ef leiðrétt væri fyrir henni væri afkoma ríkissjóðs í járnum. Af þeim sökum væri óvarlegt að stofna til nýrra og varanlegra útgjalda á grundvelli þessa afgangs og má segja að gild rök standi til þess að nýta bata í fjármagnsjöfnuði til niðurgreiðslu skulda fremur en að lækkandi vaxtagjöld leiði til vaxtar frumgjalda.“

Í meirihlutaáliti hv. fjárlaganefndar stendur að það sé möguleiki á að nota það svigrúm sem skapast með niðurgreiðslu skulda í aukin útgjöld. Það kom líka fram í andsvari hjá hv. formanni fjárlaganefndar að það væri þó svigrúm því að nýta mætti lægri vexti í ríkisútgjöld. Ég vil spyrja hv. þingmann: (Forseti hringir.) Hverju eigum við að trúa? Hvernig túlkar hv. þingmaður (Forseti hringir.) þessi orð? Þau rekast á (Forseti hringir.) eftir því hvort formaður fjárlaganefndar talar eða ráðherra efnahags- og fjármála.