146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[16:06]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það var þetta með bankana, þetta var nú eiginlega svolítið sérkennilegt og sérstaklega í ljósi þeirrar umræðu sem nú hefur skapast varðandi söluna á Arion banka. Það er líka svolítið sérstakt að í meirihlutaálitinu er lögð áhersla á að svara eigi spurningum um hvernig bankarnir verða best undir það búnir að fara í söluferli. Þetta er ekki langur tími. Kjörtímabilið er ekki langur tími. Það þarf að vanda það. Málið á að koma til þingsins. Það þarf að skapa traust. Jafnvel er talað um að fá erlenda aðila eða ráðgjöf og allt það. Ég er sammála því, það á að gera það, en ég næ ekki alveg upp í það ef hægri hendurnar tvær geta ekki talað saman, af því að það er ekki vinstri hönd á þessum ríkisstjórnarmeirihluta, hvað er þá um að ræða? Það er ljóst að aðilar þurfa að tala saman. Það þarf líka að liggja fyrir ítarleg eigendastefna áður en farið verður í þessa sölu. Ætlum við þá ekki að fá viðunandi verð? Skiptir það ekki máli? Á bara að segja það á kjörtímabilinu?

Það er alla vega ekki neitt sem við í Vinstri grænum höfum talað fyrir, það er alveg auðvitað ljóst að við hefðum frekar viljað taka bankana til okkar og reyna að búa til almennilegan ramma um eigendastefnu og ferli um sölu bankanna.

Varðandi það sem fram kom hjá hv. þingmanni framsögumanni meiri hlutans áðan þegar hann talaði um að 15 milljóna vaxtabil myndi verða til sem hægt væri að fjárfesta með eða nýta til fjárfestinga, þá er það auðvitað ekki víst, fyrir utan það að niðurgreiðsla skuldanna er ekkert í hendi vegna þess að hún byggir á svo mörgum óvissuþáttum. Ef það er það sem ráða á för þá kvíði ég því að sjá fjármálaáætlunina á föstudaginn.