146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[16:08]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það stendur í tillögu til þingsályktunar um fjármálastefnu, með leyfi forseta:

„Auk þess verður eignum sem voru hluti af stöðugleikaframlögum frá slitabúum bankanna umbreytt í laust fé og nýtt til lækkunar skulda.“

Þetta er í rauninni það eina sem er tekið fram í fjármálastefnunni sjálfri varðandi bankana, en svo kemur allt í einu fram í nefndaráliti meiri hlutans að það eigi að selja bankana. Maður veltir því fyrir sér hversu miklu meirihlutanefndarálitið ræður í rauninni um hver stefnan er. Ef stefnan er að selja bankana, af hverju er það ekki sagt í sjálfri stefnunni? Og ef það er ekki sagt í sjálfri stefnunni að það eigi að selja bankana hversu marktækt er nefndarálitið í raun og veru? Þingsályktunartillagan kemur frá fjármála- og efnahagsráðherra og meirihlutaálitið er að mestu leyti frá öðrum stjórnarflokki en fjármálastefnan kemur frá.

Það segir í nefndarálitinu að meiri hlutinn „beinir því til efnahags- og viðskiptanefndar að leiða umræður á Alþingi um undirbúning á sölu eignarhluta ríkisins í bönkunum“. Þetta finnst mér áhugavert, með leyfi forseta, og líka að markmiðið er „að salan fari fram að undangenginni ítarlegri umræðu og opnu og gegnsæju söluferli“. Þarna er fyrir fram gefið að niðurstaðan verði sala sem er pínu undarlegt fyrir umræðuna að gera.

Ég hefði haldið að ef hagvöxturinn heldur áfram þá þurfi ekkert sérstaklega að selja bankana. Ef það verða aftur á móti þrengingar þá væri hægt að liðka til varðandi það að ná markmiðunum um niðurgreiðslu skulda með því að selja kannski eitthvað af bönkunum. Mér fyndist það eðlilegt. Ég hef áhuga á að heyra skoðanir nefndarmanns fjárlaganefndar á þessu misræmi í stefnunni (Forseti hringir.) annars vegar, greinargerð með þingsályktunartillögunni og meirihlutaálitinu.