146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[16:13]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er mál sem við höfum aðeins glímt við áður í síðari umr., einmitt að ef það stendur ekki í lögunum þá er gagnslaust að útskýra það, þá er ekkert til að útskýra, þá þýðir útskýringin í rauninni ekki neitt. Ég er að velta fyrir mér hvort það eigi við í þessu tilviki líka.

Aðeins að öðru. Hv. þingmaður nefndi í framsögu sinni fyrir minnihlutaálitinu þennan ákveðna tímaramma sem okkur er gefinn í lögum um opinber fjármál almennt og sem varðar kannski fjármálaáætlunina sem verður lögð fram á föstudag og hins mjög knappa tíma sem lög um opinber fjármál virðast gefa okkur í þessu ferli. Nú á afgreiða þá fjármálaáætlun sérstaklega þar sem markmiðið á að vera að færa fjárlagaumræðuna frekar inn í fjármálaáætlunina sem áður, náttúrlega í tengslum við fjárlagafrumvarpið, tók nokkurn veginn allt haustið með heimsóknum og því um líku í nefndinni. Þetta er mjög knappur tími rétt um vorið til að ræða og dekka það sem í raun var áður gert á heilu hausti. Ég velti fyrir mér hvort þeim markmiðum sé náð.

Að sama skapi lendum við í svolítið annarlegu ástandi af því að kosningar voru í október. Venjulega hefði fjármálastefna komið eigi síðar en samhliða fjárlagafrumvarpi. Þá veltir maður fyrir sér hvort stefnan ætti í rauninni ekki að koma fram fyrr en næsta haust og fjármálaáætlun ætti að vera gerð á grundvelli fyrri fjármálastefnu, eða hvort sú fjármálaáætlun sem var í gildi ætti í raun ekki að gilda fyrir þetta ár, fjármálaáætlun og -stefnan ættu að gilda fyrir 2018 og fram eftir en ekki 2017.