146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[16:15]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það sem kannski má segja um þetta er að í fyrsta lagi er í gildi fjármálastefna fyrir árið 2017. Eins og kom fram í einhverri gagnrýni á þetta, ég man ekki hvort það var frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga eða hvaðan það kom, þá hefði hún í sjálfu sér auðvitað átt að gilda 2018–2022 en ekki fyrir árið í ár sökum þessara aðstæðna. Það hefði verið óþarfi að gera þetta núna.

Það má svo sem segja að þingið var einhvern veginn ekki undir það búið þegar starfsáætlunin var sett, í ljósi kosninganna og alls þess, að vinna þetta á þeim tíma sem ætlunin er að gera, þ.e. starfsáætlunin tekur ekki mið af þessu. Við höfum öll komið því inn til okkar þingflokksformanna og forseti er meðvitaður um að þessu þarf að breyta og ég geri ráð fyrir því. Ég vona svo sannarlega að það verði gert þannig að ramminn verði aðlagaður betur að þessari vinnu, því það er kannski verið að gera ákveðna kröfu um að fjárlagaumræðan næsta haust taki skemmri tíma. Ég sé ekki að hún geri það í ljósi þess hvernig málið ber að núna. Allt í góðu, þá tökum við okkur aðeins lengri tíma til þess. En næsta haust ætti að fara eðlilega af stað eins og þingmaðurinn var að lýsa og við ættum að afgreiða fjárlög og strax í ársbyrjun á að koma fram stefna sem á að ná utan um þetta.

Það sem mér finnst áhyggjuefni, af því að við vorum að fá minnisblað frá fjármálaráðuneytinu varðandi áhættumat vegna framkvæmda fjárlaga þessa árs, og enn frekar þegar maður horfir til þess að nefndirnar eigi núna í fyrsta sinn að fara að fylgjast með og koma með álit á sínum málaflokkum, að það er um að ræða 11 milljarða útgjöld umfram fjárheimildir fyrstu mánuði ársins, það sem liðið er, þannig að það er gríðarleg áhætta í þessu.

Virðulegi forseti. (Forseti hringir.) Ég sakna þess að ráðherrann, sem kemur hér inn í mýflugumynd, láti eiginlega ekki sjá (Forseti hringir.) sig við þessa umræðu, sem mér þykir ekki við hæfi.