146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[16:17]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hér erum við að ræða fjármálastefnu til fimm ára á grundvelli nýrrar löggjafar. Hún fjallar um umfang, afkomu og þróun eigna, skulda og langtímaskuldbindinga hins opinbera í heild og ekki til styttri tíma en til fimm ára í senn. Ég vil árétta að það er óþolandi með öllu annað en að hæstv. ráðherra sitji hér við umræðuna. Mælt hefur verið fyrir 1. minnihlutaáliti og ráðherrann hefur varla látið svo lítið að sitja hér nema í mýflugumynd. Ég geri ráð fyrir því að hann sitji hér þangað til þessari umræðu lýkur og taki þátt í henni. Hann er fjármálaráðherra í ríkisstjórn sem styðst við minnsta mögulega meiri hluta á Alþingi. Hann þarf á samtalinu að halda við Alþingi og hann á að sýna verkefninu og sjálfum sér og sínu embætti og ekki síst Alþingi þá virðingu að vera viðstaddur. Ég óska einnig eftir því að kallað verði á formann fjárlaganefndar.