146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[16:27]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil árétta mikilvægi þess að á grundvelli nýrra laga um opinber fjármál erum við hér að ræða fjármálastefnu. Á grundvelli stefnunnar fáum við fjármálaáætlun og á grundvelli áætlunarinnar fáum við fjárlagafrumvarp. Ég vil árétta það við þingheim allan, og virðulegan forseta að hnykkja á því, að það er of seint að benda á þrönga ramma þegar komið er að því að ræða fjárlagafrumvarp ef fólk hefur horft í aðra átt þegar við ræðum þessi mál. Það er hér sem grundvöllurinn er lagður og þegar hæstv. heilbrigðisráðherra var hér þýfgaður um áætlanir um uppbyggingu í heilbrigðismálum, sem ku vera efst á dagskrá núverandi ríkisstjórnar, vísaði hann í þessi plögg. Það er hér sem við munum ræða það hvort til stendur að byggja upp í innviðum samfélagsins, heilbrigðismálum, menntamálum o.s.frv. Þetta plagg er ávísun á hægri stefnu, það er ávísun á (Forseti hringir.) einkavæðingu og það er ávísun á niðurskurð í íslensku samfélagi. Þess vegna eigum við að taka þátt hér og þess vegna á hæstv. ráðherra að taka þátt í þessari umræðu því að hann hefur afar takmarkað umboð til að standa hér fyrir meiri hluta.