146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[17:05]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju Harðardóttur fyrir svarið. Ég velti líka fyrir mér í framhaldi af svari hennar hvort hugsa mætti um einhvers konar virðisaukaskattsendurheimt, til að mynda á bílaleigu. Það væri kannski íhugandi fyrir hæstv. fjármálaráðherra, ef hann væri staddur hér í salnum.

Tekjustofnar ríkisins eru mér ofarlega í huga. Eins og fram kemur í nefndaráliti hv. þingmanns hafa tekjustofnar ríkisins verið veiktir á undanförnum árum. Við það dregur úr aðhaldi í ríkisfjármálum og svigrúm til nauðsynlegra umbóta í velferðinni og velferðarkerfinu minnkar verulega. Ég er áhugasöm um að heyra hugmyndir hv. þingmanns um það hvernig hún sér fyrir sér styrkingu helstu tekjustofna ríkisins, einmitt til þess að koma til móts við þá löskun sem við höfum séð á innviðunum, í heilbrigðis- og velferðarkerfinu, akkúrat í þeim tilgangi að styrkja þessa innviði sem ríkisstjórnarflokkarnir töluðu mjög hátt um í aðdraganda kosninganna. Ég myndi gjarnan þiggja að fá að heyra hugmyndir hv. þingmanns varðandi það.