146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[17:26]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Hann drap á mörgu sem skiptir hér máli. Mig langar aðeins að ræða það áfram, sérstaklega skuldaniðurgreiðsluna sem er ekki byggð á traustum grunni, virðist vera að mati fjármálaráðs. Hv. þingmaður tekur fram í sínu áliti að það geti kostað töluvert eftirlit að fylgjast með öllum óreglulegum tekjum ríkissjóðs sem verja eigi í niðurgreiðslu skulda. Mig langar að spyrja þingmanninn hvort hann sé því sammála að öllu slíku fé skuli varið til niðurgreiðslu eða telur hann að fara verði hægar í að greiða niður skuldir og reyna að bjarga innviðunum meðfram því? Ég tel að það vaxtarými ekki vera í hendi, sem fram kom í máli hv. formanns fjárlaganefndar að ætti að myndast við niðurgreiðsluna. Þess vegna treystir maður ekki á að það verði nægjanlegt rými til þess að fylgja eftir þeim hugmyndum sem maður gerir ráð fyrir að fólk hafi almennt til þess að greiða niður skuldir.

Svo langar mig líka að spyrja þingmanninn varðandi fjárfestingarnar. Það vantar langtímasýn á fjárfestingar. Finnst hv. þingmanni ekki að það eigi að vera í stefnunni, að það sé í anda laganna, að ekki sé nóg að það komi eingöngu fram í fjármálaáætlun sem endurskoðuð er árlega, heldur þurfi það að koma fram í stefnunni til þess að við getum áttað okkur á umfanginu?