146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[17:28]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurningarnar. Við þurfum alltaf að spyrja: Er þetta óreglulegt fjármagn og einskiptisfjármagn? Ef svarið er já þá er það til að borga niður skuldir. Hins vegar þurfum við, finnst mér, að spyrja hvar og hvernig nýtist fjármagnið best. Til dæmis gæti það borgað sig núna að fylla frekar upp í holur í samgöngukerfinu því að það yrði enn þá dýrara en það sem við græðum á að borga niður skuldir og vextina sem við greiðum af því ef við þyrftum að fylla upp í holurnar eftir fimm ár. Það er tvímælalaust afstaða mín að nýta fjármuni almennings á sem hagkvæmastan hátt.

Fjárfestingarnar. Nú er það einfaldlega þannig að lög um opinber fjármál kveða á um að það eigi að vera upplýsingar um þróun eigna og stefna um þróun eigna í fjármálastefnunni. Slíkt vantar. Að sjálfsögðu ættu að koma fram áherslur nefndar þannig að maður hafi einhverja hugmynd um það hvað muni birtast í fjármálaáætlun og fjárlögum á þessum fimm árum. Þegar það vantar, þegar eitthvað birtist allt í einu í fjármálaáætlun, veit maður ekki hvort það er kúvending á einhverri stefnu eða ekki, þá gæti þess vegna verið að í fjármálaáætlun ári síðar kæmi kúvending í aðra átt. Hver veit? Þegar auður tékki er í fjármálastefnunni, eins og ég orðaði það, er hægt að gera hvað sem er í fjármálaáætluninni án þess að við getum sagt: En þetta var ekki markmiðið.