146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[17:35]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem ég er helst að fiska eftir er sundurliðunin á mismunandi skuldategundum, sem eiga að vera þarna inni samkvæmt lögum um opinber fjármál, þ.e. ríkissjóðs eða fyrirtækja hins opinbera í heild. Það er fínt að fá sundurliðunina. En það er einungis fjallað um þróun skulda í stefnunni sjálfri, hvernig þróun skulda ríkissjóðs er en ekki lífeyrissjóðsskuldbindingarnar eða fyrirtækjanna. Þessi 66 milljarða kr. lækkun finnst mér of lítil af því að aðalmarkmið stefnunnar er skuldalækkun. Ég skal fúslega viðurkenna að skuldalækkun ríkissjóðs er vegleg, en það er fleira sem þarf að taka tillit til og umsagnaraðilar bentu á, þar á meðal fjármálaráð, sérstaklega varðandi lífeyrissjóðsskuldbindingarnar. Ef við tökum þær algjörlega út fyrir sviga og einbeitum okkur að skuldum ríkissjóðs þá er það pínu villandi framsetning. Ég hefði viljað nákvæma sundurliðun á því. Hér eru skuldir ríkissjóðs, þær falla vel, það er flott, ég gef mjög jákvæða umsögn um það og vona að það markmið náist, en svo vantar þróun langtímaskuldbindinga, þar sem lífeyrisskuldbindingar eru inni, en þar er ekki stefna. Það er bara fjallað um það hvernig ástandið verður í framhaldinu ef við gerum ekki neitt.