146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[17:37]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni. Það er að sjálfsögðu eftirsóknarvert að hagvöxtur haldi áfram sem lengst. Mig langar að spyrja hann hvort hann fái sömu ónotatilfinningu og ég hvað það varðar að verið sé að ná fram lækkun skuldahlutfalls hins opinbera af vergri landsframleiðslu fyrst og fremst með aukningu á vergri landsframleiðslu frekar en með mikilli raunlækkun ríkisskulda.

Það kemur fram í nefndaráliti 3. minni hluta að um 4,35% raunlækkun er að ræða. Ég set það í samhengi við það að 1% af vergri landsframleiðslu er í dag um 30 milljarðar kr. sem greiðast niður á þessu ári samkvæmt þessari áætlun. Á sama tíma greiðir ríkissjóður rétt tæplega 70 milljarða kr. í vaxtakostnað. Telur hv. þingmaður að hægt sé að greiða ríkisskuldir hraðar niður, t.d. með því að reyna að fá einhvers konar lægri vexti á ríkisskuldunum?

Nú er líka gert ráð fyrir í forsendum stefnunnar að vöxtur á vergri landsframleiðslu fari minnkandi á tímabilinu. Hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér að þessi áætlun um aukningu á afgangi upp í 1,6% af vergri landsframleiðslu geti staðist miðað við útgjaldastig ríkisins og verðbólguþróun og þar fram eftir götunum ef hagvöxturinn minnkar? Ég sé ekki hvernig þetta getur staðist nema bara með enn meira aðhaldi en ríkisstjórnin hefur þegar boðað. Það er að mínu mati aðhaldsstig sem gengur út frá því að innviðir landsins haldi áfram að grotna niður. Það væri gaman að fá að vita þetta.