146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[18:00]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þær vönduðu umræður sem hafa verið hér um fjármálastefnuna og vil taka undir orð hv. þingmanna um það hversu mikilvæg þessi stefna er og mikilvægt að við ræðum hana í þaula.

Ég get líka tekið undir mörg af þeim sjónarmiðum sem hafa hér komið fram. Stefnan ber þess nokkurt vitni að við erum að gera þetta núna í annað sinn. Við munum svo sannarlega læra af því í hvert skipti sem við vinnum þessa stefnu. Hugmyndir um þetta munu hafa komið í fjármálaráðherratíð hv. þm. Oddnýjar (Gripið fram í.) Harðardóttur, já, fyrirgefðu. Ég tek undir að það er afar mikilvægt að við vöndum þar stefnuna til lengri tíma.

Ég ætla líka að segja að ég er sammála hv. þm. Silju (Gripið fram í: Dögg.) Dögg (Gripið fram í: Gunnarsdóttur.) Gunnarsdóttur, já, ég biðst afsökunar, um að vanda þurfi til sölu bankanna. Ég held að ég hafi getað tekið undir hvert einasta orð sem hv. þingmaður sagði þar.

Ég vil aðeins útskýra í sambandi við útgjaldareglu sem hv. þingmönnum hefur orðið tíðrætt um. Þar er miðað við ákveðið hlutfall en þegar við drögum úr afganginum sem á að vera af rekstri ríkisins, sem mun gerast á seinni hluta tímabilsins, og það dregur jafnframt úr vaxtagreiðslum ríkisins sem hlutfalli af vergri landsframleiðslu, þar erum við með svigrúm upp á kannski um 40 milljarða króna sem er vert að hafa í huga.