146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[18:05]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta fjárln. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það veldur mér talsverðum vonbrigðum að hafa ekki fengið skýrara svar frá hæstv. ráðherra um tímasetningu á sölu bankanna. Stendur til að hefja það ferli á þessu ári, næsta ári, þarnæsta? Einhvern tíma á kjörtímabilinu? Ég myndi gjarnan vilja fá svar við þessu. Þetta er stórmál, sérstaklega í þessari umræðu um fjármálastefnu til fimm ára.

Jú, við hæstv. ráðherra erum sammála um nauðsyn á uppbyggingu innviða. Sú sem hér stendur gerir sér líka grein fyrir mikilvægi þess að greiða niður skuldir til að lækka vaxtabyrði og þau þensluáhrif sem kunna að fylgja í kjölfar uppbyggingar innviða. En það sem 4. minni hluti er að benda á er að innviðirnir geta ekkert endilega allir beðið. Við leggjum til að farin sé ákveðin millileið, má segja. Jú, við höldum áfram að greiða niður skuldir og reynum (Forseti hringir.) að koma þeim í betra horf en við þurfum ekki að fara að svona harkalega. Við þurfum að fara milliveginn.