146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[18:07]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum ræðuna. Mig langar að nefna nokkur atriði og ég tek undir það með henni að ég varð fyrir vonbrigðum með að ekki komu svör um sölu bankanna, skýr svör, en það hefur verið rifjað upp í dag að einhver áhöld séu um það hvernig flokkarnir nálgast það mál.

Hv. þingmaður ræðir í áliti sínu um sveitarfélögin eins og við hin og plaggið sem við fengum afhent í gær. Þar stendur, með leyfi forseta, og er verið að ræða um markmið á fjárhagsáætlun sveitarfélaga og framsetningu fjármála:

„Gerður er fyrirvari um nákvæmni og gæði gagna og skal unnið að því á næstu mánuðum að ná sameiginlegri niðurstöðu um forsendur og verða markmið samkomulagsins endurskoðuð ef tilefni er til.“

Í sjálfu sér hefur ekkert breyst frá því að við gerðum okkar álit hvað þetta varðar. Þetta er enn í lausu lofti og ekkert í sjálfu sér í hendi með þessi markmið sem mér finnst rýra töluvert gildi stefnunnar.

En mig langaði í fyrra andsvarinu að spyrja hana aðeins um hlutverk fjármálaráðs. Mér og fleirum hefur orðið tíðrætt um álit fjármálaráðs. Við unnum á síðasta kjörtímabili að gerð þessara laga og ræddum aðkomu fjármálaráðs, hvernig það ætti að vera skipað, hvert hlutverk þess væri o.s.frv., og mér finnst mjög lítið gert úr athugasemdum fjármálaráðs. Það væri áhugavert að ráðherrann gæfi í umræðunum hér — ég er viss um að hægt er að koma honum að inn á milli þingmanna — skýringu á þessu fjármálaráði. Hvernig á það að virka? Ef það er í raun að gefa ítarlegt álit, setja fram alvarlegar ábendingar sem ekkert mark virðist vera tekið á — hvað finnst þingmanninum um það? Hvernig sér hann þetta ráð fyrir sér?