146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[18:09]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta fjárln. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svona aðeins til baka varðandi þann lagaramma sem við vinnum nú eftir og erum að máta okkur við: Talandi um fagleg vinnubrögð og samhæfingu á milli aðila sem vinna í þessu nýja kerfi er það í raun til skammar, ætla ég að leyfa mér að segja, að við nefndarmenn og þingmenn fáum óundirritað skjal kvöldið áður en umræðan í Alþingi á sér stað. Ég get líka sagt frá því hér að skjalið barst ekki einu sinni frá fjármálaráðuneytinu heldur frá sambandinu. Tímasetningar — ég gæti sagt of mikið en þetta eru óvönduð vinnubrögð og verið að gera lítið úr því sem við erum að gera. Við leggjum mikla vinnu í að skrifa nefndarálit og reyna að forma afstöðu okkar í samvinnu við okkar þingflokka og fleiri. En að fá svo svona korteri fyrir umræðu er óforskammað, finnst mér.

Fjármálaráðið: Við fengu heimsókn í nefndinni fyrir skömmu og kynningu á því hvert hlutverk þess er. Ég er sammála hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur. Manni skildist að það væri hópur sérfræðinga sem rammaði hlutina inn, hefði virkt eftirlit út frá hagtölum og öðru til að passa upp á að þetta væri nú allt eins og til var ætlast, við næðum þá tilsettum árangri varðandi aukið aðhald, aga og pössuðum betur upp á peningana. Fjármálaráðið kemur svo með mjög mikilvægar athugasemdir og ekki er tekið tillit til þeirra. Ég átta mig eiginlega ekki alveg á þessu. Ég skil ekki alveg hlutverk ráðsins ef ekki á að taka meira mark á því en virðist gert.