146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[18:16]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta fjárln. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Sú sem hér stendur er sannarlega öfundsverð, það verður bara að segjast, að fá svona ekki bara gott andsvar heldur góð andsvör frá mörgum hér í dag. Ég þakka fyrir það.

Nei, í sjálfu sér kom það ekki fram í nefndaráliti 4. minni hluta að markmiðið ætti að vera bankasala, heldur reyndum við að draga fram mikilvægi þess að eigendastefnan væri skýrari, að vinnulagið og undirbúningur tryggðu gegnsæi. Það skiptir líka mjög miklu máli að umræðan fari fram hér á Alþingi. Ég benti á að nú sé efnahags- og viðskiptanefnd þingsins að fara yfir þetta mál. Og það er víða pottur brotinn í fjármálakerfinu. Það virðist vera þverpólitísk sátt, svo ég noti þann frasa, um að við þurfum að laga fjármálakerfið okkar. Í umræðunni í dag hafa margir þingmenn nefnt peningastefnuna og hitt og þetta. Eftir ekki svo marga áratugi sem þróað ríki erum við mjög skammt á veg komin að mörgu leyti á þessum sviðum og þurfum að bæta margt. Það er almenn skynsemi að sjá það og viðurkenna. Við höldum áfram að vinna í því verkefni.

Jú, þetta gæti verið þensluhvetjandi. Við þurfum að fara varlega í því hvernig við verjum þeim arði sem kemur af sölunni þegar þar að kemur. Sveitarfélögin? Ég er sammála hv. þm. Birni Leví um að í raun fjallaði þetta bara um skjalið sem við fengum um að menn ætluðu að halda áfram að tala saman. Ég sá ekki meira bitastætt í því en það.