146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[18:18]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er nokkuð sammála því sem er sagt í áliti meiri hluta varðandi ferlið, að efnahags- og viðskiptanefnd taki upp umræðuna og leiði hana og að það sé mikil umræða um þetta mál hér. En ég er einmitt ekki sammála því að óhjákvæmilegt markmið þeirrar umræðu sé bankasala. Það takmarkar umræðuna að mjög miklu leyti að upplýsingar sem fram koma í ferlinu gætu leitt til þess að við myndum ákveða að selja ekki bankana að sinni. Við verðum a.m.k. að vera opin fyrir þeim möguleika, annars verður umræðan frekar tóm.

Eitt af aðalmarkmiðum fjármálastefnunnar er að koma í veg fyrir þenslu. Það eru ansi margir milljarðar ef bankarnir eru seldir í uppsveiflu. (Forseti hringir.) Ég myndi giska á að það yrði mjög þensluhvetjandi og færi þar af leiðandi gegn fjármálastefnunni sjálfri.