146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[18:35]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er mjög glöð yfir að við skulum vera sammála, ég og hæstv. fjármálaráðherra. Það væri annars vegar vandræðalegt og hins vegar óþægilegt fyrir okkar næsta fund ef svo væri ekki. Ekki það að ég hafi efast um það á nokkurn hátt. Ég tek bara undir þetta. Við erum með skýra eigendastefnu, stefna Viðreisnar hefur líka verið sú að líta til þessara þátta, að vera ekki eigendur að þessum bönkum til lengri tíma litið. Þetta stendur í stjórnarsáttmálanum. Þetta eitt og sér kemur engum sérstaklega á óvart sem hefur kynnt sér þau mál. En lykilatriðið er að hér ætlum við að læra af reynslunni, stíga varlega til jarðar, vanda vel til verka og ferlið verður opið og gegnsætt. Það er útgangspunkturinn. Og síðan að fá gott verð fyrir þessa hluti, það skiptir alveg gríðarlegu máli fyrir framhaldið hjá okkur.