146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[18:37]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hjó eftir því að í ræðu hv. þingmanns talaði hún um að vaxtagjöld myndu lækka upp úr 2019 sem hefði í för með sér að við þyrftum ekki að halda jafnmikið að okkur höndum eins og næstu tvö ár. Í nefndaráliti meiri hlutans stendur, með leyfi forseta:

„Ljóst er að niðurgreiðsla á skuldum ríkisins ræðst að miklu leyti af því hvernig til tekst með sölu þessara eigna.“

Ef það er svo að vaxtagjöld lækki upp úr 2019, þýðir það ekki að við þurfum að selja banka fyrir þann tíma, til að ná því fram? Þýðir það að ráðist verði í sölu á Íslandsbanka og Landsbanka á næstu tveimur árum? Er það sú mynd sem er verið að draga upp hér þegar ég heyri hv. stjórnarþingmenn tala hægri og vinstri og hæstv. ráðherra sömuleiðis? Er þetta planið? (Forseti hringir.) Það virðist sem svo að öll fjármálastefnan byggist á því að selja banka.