146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[18:40]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aftur: Ég þakka andsvarið og tækifærið til að ræða þetta hér. Mögulega get ég nálgast málið með því að útskýra að þessi fjármálastefna felur ekki í sér svarið við niðurgreiðslu á öllum skuldum ríkissjóðs. Því miður. Það væri óskandi að svo væri. Hún felur í sér ákveðna niðurgreiðslu. Ég er búin að fara yfir það, bæði í ræðu minni og í fyrra andsvari, hvaðan þeir peningar gætu komið. En eftir stendur stór skuldabaggi ríkissjóðs. Hugmyndin er, ef vel tekst til, að nota meðal annars eigur ríkisins, og þá fyrst og fremst í formi bankanna, til að greiða þær skuldir niður.