146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[18:41]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hv. þingmaður talaði um þörf fyrir fjárfestingar í heilbrigðiskerfi og samgöngum og sagði að það væri áhersluatriði hjá stjórnarflokkunum og ríkisstjórninni að fjárfesta í heilbrigðiskerfi og í samgöngum, og vonaði að ramminn kæmi ekki í veg fyrir nauðsynlega fjárfestingu ef ég skildi hv. þingmann rétt. Jafnframt sagði hv. þingmaður að áskorunin væri að fjárfestingarnar yllu ekki ofhitnun. En er ekki staðan einmitt þannig núna að ef fara á út í fjárfestingar þarf að afla tekna til þeirra sérstaklega? Ef við setjum krónur út í hagkerfið til að bæta í fjárfestingar verðum við að taka þær annars staðar frá til að valda ekki ofhitnun?