146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[18:45]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef væntanlega flækt málin eitthvað þarna. Þá er því til að svara að ég er að fjalla um stefnu sem er til fimm ára og á einhverjum tímapunkti, eftir því sem gengur á lækkun skulda og þar með lækkun vaxtabyrði, þá eykst svigrúmið. Ég held því ekki að þetta stangist neitt á, ég ætla að leyfa mér að trúa því. En við erum auðvitað í ákveðinni óvissu. Ég get sagt það fyrir mig að ég hefði viljað að við værum að vinna þetta við betri aðstæður en nú eru. Ég er að fara í gegnum þetta í fyrsta skipti eins og margir aðrir hv. þingmenn. Við sáum það ekki fyrir — ekki þeir sem mörkuðu leiðina á fyrra kjörtímabili með að samþykkja þessa stefnu og þessi vinnubrögð almennt, sem eru til fyrirmyndar, held ég, þ.e. að segja að fara þessa leið — hversu knappur tími gæfist núna. Að einhverju leyti má því segja að við séum á harðahlaupum í kappi við tímann. En ég er samt sannfærð um að sá tónn sem er sleginn með þessari stefnu sé réttur. Við verðum síðan að sjá hvort ég hef rétt fyrir mér þar.