146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[18:46]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum ræðuna. Ég verð að taka undir með þeim sem hér hafa talað um vegna bankanna. Það er ekkert óeðlilegt að um það sé spurt þar sem hér hafa borist misvísandi svör, frá formanni fjárlaganefndar og ráðherra, varðandi niðurgreiðslur skuldanna og allt það. Fram kemur hjá fjármálaráði að raunverulegt söluverðmæti sé óvíst. Við getum ekki áætlað arðgreiðslur á hverju ári, virðist vera, miðað við það sem raunveruleikinn hefur sýnt okkur. Það hefur ekki verið gert vegna þess að það hefur ekki mátt sýna nógu mikið.

Varðandi niðurgreiðslu og þróun vaxtagjalda og annað slíkt hefur ávöxtunarkrafa lífeyrissjóðanna þar töluvert að segja, eins og hv. þingmaður veit og við fengum kynningu á í fjárlaganefnd. Við höfum verið að endurfjármagna þá frá því eftir hrun. Mér heyrðist hv. þingmaður segja að hægt væri að fjármagna niðurgreiðslu skulda með því að nýta fyrst og fremst arðgreiðslur og annað slíkt. (Forseti hringir.) En á móti kemur að það verður kannski að bíða að mestu leyti (Forseti hringir.) með innviðauppbyggingu þau tvö ár sem (Forseti hringir.) nú fara í hönd að þessari stefnu.