146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[18:48]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur fyrir andsvarið og tek fyllilega undir með henni varðandi bankamálin. Það er ákveðin óvissa í gangi þar. Eðli málsins samkvæmt er óvissa. Ferlið þarf að hafa sinn gang. Við ætlum að hafa þetta rétt hér varðandi gegnsæi og opin vinnubrögð, upplýsingastreymi. Svo þarf kaupendur. Það er ekki hægt að festa niður einhvern ákveðinn tímapunkt, þó að við værum öll af vilja gerð til þess, og segja: Á þessum tímapunkti innan ramma fjárlagastefnunnar ætlum við að vera búin að selja bankana eða hluta þeirra, eða hvaða leið sem verður farin, og nota þá peninga í niðurgreiðslu skulda og/eða í innviðauppbyggingu. Það er allt svolítið á reiki.

Til grundvallar þessari fjármálastefnu liggur 150 milljarða einskiptiskostnaður. Hann er að minnsta kosti, eins og við getum séð á vaxtagreiðslum ársins í ár — og auðvitað er það ekki á vetur setjandi eða hægt að segja að það komi inn öll árin, (Forseti hringir.) en engu að síður er það þannig að (Forseti hringir.) fjármálastefnan skuldbindur okkur ekki til þess að flýta okkur varðandi sölu bankanna til að ná markmiðum.