146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[18:51]
Horfa

Theodóra S. Þorsteinsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég er ánægð með að nú skuli liggja fyrir fjármálastefna fyrir næstu fimm árin. Við erum loksins farin að horfa fram í tímann og reyna að sjá aðstæður fyrir, fyrirbyggja alls konar alvarlega hluti og breyta fjármálastjórninni úr því að vera eingöngu viðbrögð við alls kyns aðstæðum sem hefði verið hægt að sjá fyrir og fyrirbyggja, í það að taka ábyrga stjórn á henni. Því ber að fagna, virðulegi forseti. Ég er hins vegar raunsæ. Það er ekki komin mikil reynsla á lög um opinber fjármál. Það mun taka bæði ríkið og sveitarfélög einhver ár að koma því verklagi í fullkomið form.

Af því að ég hef loksins ágætan tíma til umræðu og af því að við ræðum hér langtímafjármálastefnu langar mig til þess að nefna eitt sem er sérstakt áhugamál mitt, þ.e. stefnumótun og stefnumarkandi áætlanir. Mér finnst því gríðarlega spennandi að taka þátt í þeirri þróun sem þessi lög og aðferðafræði býður upp á og hvernig verklag og vinnubrögð verða bætt.

Ég vil hins vegar taka undir það sem komið hefur fram í umræðunni hjá nokkrum hv. þingmönnum, að heppilegra hefði verið að hafa fleiri stefnur klárar og skýrar aðgerðaáætlanir. Ég sakna fjárfestingarstefnu og eigandastefnu ríkisins í fjármálafyrirtækjum, skýrri stefnu í ferðaþjónustu, orkustefnu, heildarstefnu í heilbrigðismálum og fjölmargra annarra stefna, heildarsýnar yfir markmið, mælikvarða, innviðamælinga. Það eru nefnilega margar leiðir og mjög margir áhugaverðir mælikvarðar sem hægt er að nota og búa t.d. til í vísitölu félagslegra framfara sem ætlað er að mæla hæfni og getu samfélags til þess að mæta grunnþörfum og hjálpa til við að bæta lífsgæði samfélaga. Ég bind vonir við að við förum út í slíka fagmennsku og að bætt verði úr því.

Formaður fjárlaganefndar hefur farið yfir meginforsendur stefnunnar. Ég vil hins vegar nota tækifærið hér og nefna fimm atriði sem ég vil leggja sérstaka áherslu á í þessu samhengi.

Í fyrsta lagi eru alls kyns stór og mikil verkefni sem blasa við okkur í íslensku samfélagi. Má þar nefna að vöxtur ferðaþjónustunnar hefur verið hraðari en nokkurn óraði fyrir og er farinn að hafa veruleg áhrif á íslenskt samfélag á mörgum sviðum. Vöxturinn hefur leitt til alls kyns samfélagslegra vandamála, skorts á íbúðarhúsnæði, áhrifa á vegaþjónustu, vegagerð, löggæslu, skipulagsmál, svo eitthvað sé nefnt. Það hefði verið óskandi ef farið hefði verið í það um leið og vöxtur í ferðaþjónustu varð áþreifanlegur hér 2011 eða 2012 að móta framtíðarstefnu fyrir þennan mikilvæga atvinnuveg. Ferðaþjónustan hefur ruðningsáhrif á aðrar atvinnugreinar sem eru í harðri samkeppni um vinnuafl og fjármagn. Vöxturinn hefur einnig leitt til styrkingar á gengi krónunnar, sem aftur hefur leitt til veikingar útflutningsgreina. Frekari styrking krónunnar getur auðveldlega leitt til samdráttar í komu ferðamanna til landsins með tilheyrandi efnahagssamdrætti. Þá væru forsendur fjármálastefnunnar brostnar. Við þurfum því að bregðast við og koma á jafnvægi á ferðaþjónustuna. Hún er nefnilega ekki í jafnvægi.

Í annan stað langar mig til að vekja athygli á að það gengur vel um þessar mundir, eins og komið hefur fram. Hagvöxtur hefur verið með ágætum, það hefur auðvitað ekki farið fram hjá neinum. Að mestu leyti hefur það verið vegna þess að komur ferðamanna hafa fjórfaldast að umfangi, makríllinn var svo vinsamlegur að leggja leið sína inn í íslenska fiskveiðilögsögu og olíuverð og fleira hefur hjálpað til. En góð staða er líka tilkomin vegna þess að ykkur, sem setið hafa hér lengur en ég, í einhver ár, tókst í skjóli fjármagnshafta að leysa úr flestum stórum vandamálum sem við stóðum frammi fyrir við hrunið, vandamálum sem steðjuðu að í íslensku efnahagskerfi. Við eigum langt í land með ýmislegt annað, en hér hefur allt verið á uppleið eftir að allt hrundi. Við sjáum reglulega öfgakenndar sveiflur þar sem flestir tapa og íslenskur almenningur situr uppi með ábyrgðina. Ástæðan er íslenska krónan, eins og við vitum, þótt sumir séu ósammála því.

Hér er ástæða til þess að nefna að það voru einmitt erlendir vogunarsjóðir sem tóku stöðu gegn íslenskum almenningi fyrir hrun með skelfilegum afleiðingum, og átti krónan stóran þátt í því. Vogunarsjóðirnir eru hér enn. Krónan sveiflast eins og strá í vindi og vogunarsjóðir reyna svo að hafa áhrif á markaðinn til að hagnast sem mest. Það er mitt mat. Ég er ekki sérfræðingur, en þetta er orðspor vogunarsjóða. Ég vildi engu að síður nefna það í þessu samhengi. Það er örugglega engin tilviljiun að nýir eigendur hlutar í Arion banka eiga 9,99%. Þannig geta vogunarsjóðir falið sig og viðskiptavinir bankanna munu aldrei komast að því við hverja þeir eiga viðskipti.

Margir bentu líka á að krónan hefði bjargað okkur eftir hrun. Mögulega er það rétt, en hrunið hefði ekki átt sér nema vegna hennar, segja aðrir. Hún er einhvern veginn upphafið og endirinn bæði á hörmungunum og hömlulausri velgengni þess á milli. Á meðan við notum krónuna sem gjaldmiðil er því mikilvægara en allt að reyna að sjá fyrir eins mikið og maður getur, gera áætlanir og reyna að taka eins vel utan um efnahagsstjórnina og hægt er. Það reynum við að gera með fjármálastefnu. Við ætlum nefnilega ekki að láta reka á reiðanum lengur. Við ætlum að horfa á stóra samhengið, líta á fjármál hins opinbera sem eina heild, hvort sem það er á ríkisstigi eða á sveitarstjórnarstigi.

Í þriðja lagi vil ég gera það að umtalsefni að ríkið og sveitarfélögin hafa komist að samkomulagi — ég segi það með fyrirvara, það er óstaðfest, barst seint — um mögulega sameiginlega sýn ríkis og sveitarfélaga á fjárfestingarstefnu beggja aðila. Það samkomulag samræmist skilyrðum um heildarjöfnun, heildarskuldir og stuðlar að góðri hagstjórn og styrkri og ábyrgri stjórn opinberra fjármála og byggir á sjálfbærni, varfærni, stöðugleika, festu og gagnsæi. Ég tek það samt sem áður fram að við erum á frumstigi í þeirri þróun. Þetta eru auðvitað verðug markmið. Ríki og sveitarfélög hafa einnig komið sér saman um að bæta framsetningu upplýsinga sem hjálpa til við að taka réttar og upplýstar ákvarðanir, að endurskoða regluverk til að styðja við samræmdar fjárhagsáætlanir sveitarfélaga og bæta upplýsingar um afkomu og fjárhagsáætlanir fyrirtækja hins opinbera til að treysta greiningu á stöðu þeirra og áformum.

Þá stendur einnig til að endurskoða virkni fjármálareglna sveitarfélaga og hins opinbera með tilliti til hagstjórnarlegra markmiða, sjálfbærni, efla samstarf og verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og endurnýja það samstarf árlega. Það eru verðug markmið og verður ánægjulegt að taka þátt í þeirri þróun og þeirri vinnu sem fram undan er með sveitarfélögunum.

Í fjórða lagi vil ég nefna að nú reynir á að forgangsraða fjárfestingum með þeim hætti að ekki verði hætta á ofþenslu á sama tíma, eins og við finnum mögulega fyrir á þessum tímum. Það eru fjölmörg verkefni afar brýn, um það eru allir sammála, og margir innviðir þarfnast verulegrar athygli. Þannig er útlit fyrir að umfangsmestu opinberu framkvæmdir næstu ára verði uppbygging nýs Landspítala og viðamikil stækkun á allri aðstöðu á Keflavíkurflugvelli. Síðan má auðvitað nefna aðrar fjárfestingar, svo sem uppbyggingu hjúkrunarheimila og fleira.

Með öðrum orðum er útlit fyrir að um sé að ræða veruleg umsvif á suðvesturhorninu. Ég tel afar mikilvægt í því ljósi að greind séu áhrif mismunandi fjárfestinga og framkvæmda í einstökum greinum, sem og þensluáhrif á höfuðborgarsvæði annars vegar og landsbyggðar hins vegar. Það dugar ekki að láta staðar numið við gerð fjármálastefnu. Við þurfum líka að gera fjárfestingaráætlun með greiningu og hagrænum og félagslegum áhrifum á samfélagið. Með því er ekki verið að koma í veg fyrir nauðsynlega fjárfestingu, rammi fjármálastefnunnar má ekki leiða til þess. Það skiptir hins vegar öllu máli að rýna framtíðina með bestu mögulegum upplýsingum og greiningartækjum til að taka stjórnina og gera hlutina eins vel og hægt er. Það skiptir öllu máli að heildarmyndin sé skýr og að markmiðin náist um að halda ofþenslu niðri og að allir stærstu þátttakendur séu samstiga í því.

Í fimmta lagi og í síðasta lagi vil ég nefna þau tíðindi sem berast af sölu á hlut í Arion banka. Þar hafa óþekktir aðilar eignast býsna stóran hlut í bankanum án þess að við höfum tækifæri til að komast að því hverjir þeir eru. Mér finnst að við þurfum að skoða mjög vandlega reglur um upplýsingaskyldu eigenda fjármálafyrirtækja, ekki bara á ráðandi hlut, sem er þá 10% hlut eða meira, heldur minni hlutum líka. Það er auðvelt að gera alls kyns óskunda í skjóli nafnleysis. Regluverkið verður að vera þannig að við eigum ekki að þurfa að hafa áhyggjur af nafnleysinu. Það var ekki ríkið sem seldi sinn hlut og hefur því ákaflega lítið um söluna að segja. Það er hins vegar stefna ríkisins að selja hlut í viðskiptabönkunum þremur, eins og komið hefur fram hér, án þess að ég viti nákvæmlega hvenær það er tímasett.

Ríkið á Landsbankann og Íslandsbanka nánast að fullu, 13% í Arion banka. Áður en þessir hlutir verða seldir þarf að fara fram ítarleg umræða og ákvarðanataka um framtíðarskipulag og eignarhald viðskiptabankanna. Það er mörgum spurningum ósvarað um alls kyns mikilvæg atriði áður en nokkuð verður selt af þessum eignum. Við þurfum að vanda okkur eins mikið og okkur er unnt til að koma í veg fyrir hörmungar eins og dundu yfir okkur haustið 2008. Það verður einnig mikilvægt fyrir okkur að fá niðurstöðu rannsóknarnefndar um erlenda þátttöku í kaupum á eignarhlutum Búnaðarbankans í hendur á morgun. Við verðum að halda áfram að kafa ofan í þá hluti sem farið hafa úrskeiðis til að læra af mistökum og koma í veg fyrir að þau gerist aftur og aftur. Það er lágmarkskrafa að klúðra málunum ekki ítrekað með sömu mistökunum.

Svo mörg voru þau orð, virðulegi forseti.