146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[19:03]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég tek undir með henni þegar hún talar um stefnumörkun og hversu mikilvægt er að leggja góða vinnu í stefnumörkun á ýmsum sviðum og horfa til framtíðar og reyna síðan að búa til raunsæja áætlun í framhaldi af því. Það var einmitt hugsunin að breytingum á lagaumgjörð um opinber fjármál.

Hv. þingmaður talaði um ferðaþjónustuna og vildi óska þess, ef ég man rétt, að tekið hefði verið á hlutum þegar hún byrjaði að vaxa. En það var einmitt þannig að á árinu 2012 þegar verið var að undirbúa fjárlagafrumvarp fyrir árið 2013 var kallað eftir tveimur skýrslum um stöðu og rekstrarumhverfi ferðaþjónustunnar. Önnur var frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands sem fjármálaráðuneytið óskaði eftir, og hin var frá KPMG sem greinin sjálf óskaði eftir. Báðar voru sammála um það, eins og hugmyndin var þá, að ef færa ætti virðisauka úr 7% upp í 25,5% þá myndi það draga úr vexti ferðaþjónustunnar og miðað við varlegar áætlanir sem gerðar voru þá, yrðu ferðamenn milljón árið 2018 en ekki 2019. Auðvitað hefur vöxturinn síðan orðið mun meiri en þegar þær áætlanir voru gerðar. En þær voru samt gerðar. Þar var verið að huga að því að setja rekstrarumhverfi í kringum ferðaþjónustuna á meðan hún væri í miklum vexti.

Þessu var mótmælt mjög harðlega og sérstaklega af samstarfsflokki hv. þingmanns og ríkisstjórnarsamstarfsins sem hv. þingmaður styður. Úr varð að gerðar voru málamiðlanir, og dregið úr þessum hlutum, sem síðan voru algjörlega teknar í burtu þegar ný ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks tók við völdum.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hún sé ekki sammála því að það hefði þurft (Forseti hringir.) að taka á þessum málum árið 2012 og hvort það sé nokkuð orðið of seint að setja almennt rekstrarskilyrði í kringum ferðaþjónustuna.