146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[19:05]
Horfa

Theodóra S. Þorsteinsdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða spurningu. Þetta er áhugamál mitt, mér finnst gaman að ræða ferðaþjónustuna þar sem ég sat í stjórn Isavia. Mín sýn var sú, það eru hér reyndar flugfélög sem stýra framboðinu sem hefur síðan áhrif á samfélagið, hvernig við eigum að stýra og hafa áhrif á ferðaþjónustuna. Ekki eru allir sammála um það. Mér heyrist samt sem áður að Samtök ferðaþjónustunnar séu sammála mér í dag að það er fyrst og fremst innflæðið inn í landið þar sem við eigum að hafa áhrif á, mögulega, að takmarka einhver flugfélög, dreifa flugfélögunum, að takmörkunin og stýringin komi raunverulega þaðan í staðinn fyrir að setja álögur á þessa grein. Það er því hægt að fara margar leiðir.

Mér finnst mikilvægt vegna þess að nefnt hefur verið, eins og hv. þingmaður nefnir, mér finnst ánægjulegt að heyra það, ég var svo sem ekki á staðnum 2011 og 2012, en það er búið að búa til þennan vegvísi í ferðaþjónustu. Það er búið að búa til einhverjar sviðsmyndir. Í vegvísinum kemur raunverulega ekki fram þannig stefna að sett séu einhver markmið og fundnar leiðir, heldur er aðallega talað um ákveðna tekjumöguleika og hvernig staðan er í dag. Þetta er svona sýn á það. Mér finnst að við þurfum að taka ákvörðun um það.

Stóra spurningin sem ég vil raunverulega spyrja ferðaþjónustuna er, því að mér finnst svo mikilvægt að þetta sé gert í samráði allra aðila, hversu marga ferðamenn við viljum fá inn í landið í ár, eftir tvö ár, eftir fimm ár. Hvernig viljum við haga þessu? En fyrst og fremst finnst mér alls ekki of seint að fara í stefnumörkun, finnst hún brýn og við þurfum að gera þetta í samráði við Samtök ferðaþjónustunnar og fleiri aðila.