146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[19:14]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir svarið. Það er kannski einmitt það sem ég er að spyrja um. Af því að hér segir fjármálaráðið beinlínis að við séum ekki að taka á þessu. Ég hefði viljað sjá tekið á þessu, við þessu brugðist, í nefndaráliti meiri hlutans. Það er ekki gert. Það er eiginlega þess vegna sem ég er líka að spyrja hv. þingmann af því að ég heyri að hún er tilbúin til að taka á þessu en tekur samt undir álit meiri hlutans án þess að gera þar fyrirvara eða neinar athugasemdir um akkúrat þetta. Þess vegna hefur maður ákveðnar efasemdir um að hugur fylgi máli; ég ætla kannski ekki að segja það heldur hefur maður efasemdir um að verkin tali í þessu samhengi. Það var kannski innleiðing mín að þessu af því að mér finnst þetta mikilvægt. Þetta er stórt atriði sem hér er bókstaflega, eins og fjármálaráð segir, tekið úr sambandi, þ.e. sveiflujöfnunin. Það er alls ekki ásættanlegt í stöðunni sem við erum í í dag með ríkisfjármálin.