146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[19:21]
Horfa

Theodóra S. Þorsteinsdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek alveg heils hugar undir þessar vangaveltur varðandi ferðaþjónustuna og þær sviðsmyndir sem við þurfum að fá og þau áhrif sem það hefur á efnahagsstjórn. Að mínu mati vitum við það ekki. Mér finnst þessi óvissa vera óhugnanleg, raunverulega, vegna þess að þetta breytir svo miklu. Við getum alveg talað um það hér hvort hrun verði í ferðaþjónustu og hvaða áhrif það hefur á okkur, hversu afgerandi það hrun yrði. Ég vil bara taka undir þetta. Mér finnst að við þurfum að greina þetta miklu betur. Við þurfum, eins og ég hef talað um, að marka stefnu í ferðaþjónustunni út frá áhrifum hennar á samfélagið. Það er ekki bara á efnahagskerfið heldur líka á uppbyggingu innviða, hversu sátt við erum sem samfélag í þessari þróun, og margt annað. Ég vil því taka undir það að ég vil halda áfram þessari vinnu.