146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[19:50]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um fjármálastefnu fyrir árin 2017–2022. Sú umræða hefur kannski ekkert farið sérstaklega hátt í fjölmiðlum, í samfélaginu, en er eigi að síður algert grundvallarplagg þegar kemur að pólitískum áhersluatriðum til næstu fimm ára. Þetta er auðvitað hluti af því nýja lagaumhverfi sem við erum stödd í um opinber fjármál þar sem í raun er búið að breyta algerlega umgjörð ríkisfjármála. Hugsunin, sem er jákvæð, er að við séum með skýrari stefnu til lengri tíma, aukinn fyrirsjáanleika, skýrari línur í ríkisfjármálum. En þó er það svo, svo að ég byrji á þessari umgjörð, að ég tel að mörgu við frágang þessara laga og við vinnulag við innleiðingu þeirra sé ábótavant.

Í fyrsta lagi hafa þær þjóðir sem hafa verið að innleiða svipaða lagaramma um opinber fjármál gefið sér talsvert meiri tíma í þá innleiðingu. Ég vil minna á að Alþingi fer með fjárstjórnarvaldið samkvæmt stjórnarskrá Íslands. Með þessari umgjörð, sem búið er að færa í lög, er fjárstjórnarvaldið að miklu leyti komið til framkvæmdarvaldsins. Við erum búin að skapa lagaumgjörð sem kallar á mun meiri miðstýringu en var hér fyrr á árum í fjárlagagerð. Ég er á því að meiri miðstýringu hefði þurft, og vitna þá til að mynda til þess sem hér var gert á árinu 2011, að mig minnir, þegar horfið var frá því að fjárlaganefnd væri að úthluta fjármunum til ýmissa safnliða, sem var oft úthlutun með gríðarlegri fljótaskrift. Þar var úthlutað háum fjárhæðum sem ekki endilega var mikil fagleg ígrundun á bak við.

Ég spyr: Erum við ekki komin of langt þegar við afgreiðum ríkisfjármálastefnu hæstv. fjármálaráðherra og ekki er gefinn tími til að fara yfir þjóðhagslegar forsendur, þegar efnahagsnefnd fær málið til umsagnar frá fjárlaganefnd með því fororði að við höfum einn dag til að skrifa umsögn? Það fór svo að efnahagsnefnd skilaði umsögn sem var ekki umsögn heldur áréttuðum við að við myndum fara betur yfir þessi mál þegar fjármálaáætlunin lægi fyrir. Þannig á vinnulagið auðvitað ekki að vera. Það er eðlilegt að efnahagsnefnd þingsins fari yfir þjóðhagsforsendurnar á bak við slíka langtímastefnumótun þar sem þjóðhagsforsendurnar skipta beinlínis öllu máli.

Við innleiðum þetta vinnulag og setjum á laggirnar fjármálaráð og það á að vera fjármálastefna. Hún er í raun ákveðinn stólpi í efnahagsstjórn landsins og peningastefnan, sem peningastefnunefndin vinnur samkvæmt, er annar stólpi. Hvernig búum við að peningastefnunni? Jú, það er peningastefnunefnd, Seðlabankinn þar á bak við, og þar eru sérfræðingar. En erum við með þjóðhagsstofnun að baki fjármálaráði? Erum við yfir höfuð með einhverja starfsmenn á bak við fjármálaráðið? Þar sem ég hef skoðað innleiðingu svipaðs lagaramma annars staðar er yfirleitt um að ræða einhvers konar stofnanir eða „secreteriat“, með leyfi forseta, einhvers konar skrifstofu með sérfræðingum sem vinna þannig að viðkomandi fjármálaráð hafi forsendur til að kafa dýpra. En þegar kemur að hlutverki þingsins, í ljósi þess að hér er verið að setja stefnu til lengri tíma sem byggir á ákveðnum forsendum um þróun þjóðhagsmála og gert er ráð fyrir að við ætlum að stjórna ríkisfjármálunum út frá hagsveiflunni, þá gefst ekki tími til þess.

Mér finnst þetta umhugsunarefni fyrir þá sem er annt um þingið og vilja standa vörð um sjálfstæði þess og hlutverk eins og það er skilgreint í stjórnarskrá. Ég velti fyrir mér hvert hlutverk þingsins er eiginlega orðið þegar við ætlum að afgreiða mál á borð við langtímastefnu til fimm ára með þessari hraðskrift. Ég vona að þetta séu byrjunarörðugleikar í þessari innleiðingu. En að mínu viti hefði verið betra að við hefðum gefið okkur meiri tíma til að fara yfir þetta allt. Það sást best á ágætum fundi, sem haldinn var með þingmönnum um lagaumhverfið, að þingmenn höfðu mjög margar spurningar um það hvaða áhrif fjármálastefnan hefði á fjármálaáætlunina og hvert yrði svo hlutverk þingsins við endanlega afgreiðslu fjárlaga.

Þetta er nú kannski það fyrsta, þ.e. hlutverk þingsins í þessu öllu og sú hraðskrift sem mér hefur fundist einkenna innleiðingu þessara mála. Mér finnst ekki gott að ekki hafi gefist færi á að fara yfir efnahagsforsendurnar í þeirri nefnd sem það heyrir undir. Ég vænti þess að þetta séu byrjunarörðugleikar en allt er þetta hluti af því að skipta um kúrs í því hvernig við skipuleggjum ríkisútgjöldin. Þar þurfum við sem þingmenn að gæta að ákveðnu jafnvægi.

Það sem við sjáum, þar sem þetta kerfi hefur verið innleitt, er að það hefur yfirleitt í för með sér að áætlanagerð gengur betur eftir. Það eru minni frávik frá áætlunum og þar af leiðandi meiri festa, meiri stöðugleiki, í útgjöldum ríkisins. En um leið sjáum við miklu meiri miðstýringu. Hlutverk þingsins verður minna. Þá hljótum við að velta því fyrir okkur, sem hér sitjum, kjörnir fulltrúar, hvernig við ætlum að finna jafnvægið á milli þess að stýra fjármálum ríkisins skynsamlega en um leið á lýðræðislegan hátt. Því við sitjum hér sem fulltrúar almennings. Við þurfum að geta brugðist við sem fulltrúar almennings; fulltrúar ákveðinnar stefnu vissulega, hvert og eitt okkar og hver og einn flokkur, en við erum líka öll fulltrúar almennings í þessu landi. Það er mikilvægt að muna að við erum í hans umboði að samþykkja þessa stefnu til fimm ára. Það skiptir miklu að allir þingmenn átti sig á því. Þess vegna hef ég ákveðnar áhyggjur af því, eftir þessa byrjun, hvernig þessi umræða hefur farið af stað og hvernig við erum að vinna þetta, hvort við horfum upp á of mikla miðstýringu, hvort við séum að gera þetta með nægjanlega lýðræðislegum hætti hér á vettvangi þingsins.

Svo að ég víki nú að inntaki stefnunnar sjálfrar, sem á að móta það hvernig við setjum niður áætlanir og fjárlög næstu fimm ára, þá staldra ég við að þetta er auðvitað hápólitískt plagg eins og kom fram í máli og nefndaráliti hv. þm. Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur og raunar hjá fleiri hv. þingmönnum. Fjármálastefnan á að móta allt sem við gerum. Fyrir utan þann lagaáskilnað sem við þingmenn Vinstri grænna lögðumst gegn á sínum tíma þegar lögin um opinber fjármál voru samþykkt hér á Alþingi — þar sem sett eru inn tiltekin skilyrði fyrir fjármálastefnu og fjármálaáætlun, tiltekin afkomuskilyrði, skilyrði fyrir skuldastöðu og öðru slíku — er bætt við viðbótarskilyrði sem felst í ákveðnu útgjaldaþaki. Ágætlega hefur verið farið yfir það hér af öðrum hv. þingmönnum. Það er sett ákveðið útgjaldaþak sem miðast við stöðuna eins og hún er nú. Ekki er gert ráð fyrir frekari tekjuöflun á tímabilinu. Viðbótarútgjöld þurfa þannig að rúmast innan hagsveiflunnar. Farið er yfir það í sjálfri stefnunni að mikilvægt sé að nýta það svigrúm sem skapast til niðurgreiðslu skulda. Enn fremur kemur fram í áliti meiri hlutans að hins vegar sé viðurkennt að mikil þörf sé fyrir aukin útgjöld. Við erum sem sagt með stefnu sem gerir ráð fyrir útgjaldaþaki, sem gerir ráð fyrir því að útgjöld verði ekki aukin nema það rúmist innan hagsveiflunnar, að lækkun skulda verði í raun nýtt til að draga úr vaxtakostnaði en ekki sett í varanleg útgjöld, að einskiptisgreiðslur, sem skili sér inn í ríkissjóð, verði nýttar í lækkun skulda. Það er brýn þörf fyrir uppbyggingu, það vita hv. þingmenn, því lofuðu þeir allir fyrir síðustu kosningar. Þeir lofuðu uppbyggingu í heilbrigðiskerfinu, menntamálum, samgöngum. En í nefndaráliti meiri hlutans er talað um að kanna þurfi til hlítar, með leyfi forseta:

„… möguleika á að fjármagna hagræna innviði í samstarfi við stofnanafjárfesta, svo sem lífeyrissjóði.“

Svo er sagt að mikilvægt sé að rammi fjármálastefnunnar komi ekki í veg fyrir nauðsynlega og eðlilega fjárfestingu í innviðum samfélagsins.

Ég spurði hv. þm. Harald Benediktsson út í þetta hér áðan. Jú, það sem málið snýst um er að meiri hlutinn vill afgreiða fjármálastefnu án þess að aukin ríkisútgjöld, sem þörf er á, séu fjármögnuð, út af þeirri trúarsetningu að ekki megi hækka skatta á þá sem mest hafa í samfélaginu. Það megi til að mynda ekki, eins og komið hefur fram í máli hv. þingmanna, skattleggja fjármagnseigendur í samfélaginu, hækka veiðigjöld í samfélaginu, sækja tekjur þangað sem peningana er að finna.

Ég tek undir með þeim sem hér hafa talað fyrir skattlagningu á ferðaþjónustu. Ég lagði sjálf til slíka skattlagningu við afgreiðslu síðustu fjárlaga, um komugjöld sem yrðu tekin upp. Og í raun og veru er það algerlega óútskýranlegt að Alþingi hafi ekki brugðist við þeirri þróun sem hefur orðið í ferðaþjónustunni með skynsamlegri og sanngjarnri skattlagningu á þá grein. Nei, ekki er gert ráð fyrir neinum af þessum sérstöku tekjum. Og þá er ætlunin, eins og kom fram í máli hv. þm. Haraldar Benediktssonar, að fara frekar þá leið að sækjast eftir samstarfi við lífeyrissjóðina, sem hafa þó ekki endilega það hlutverk að sinna innviðafjárfestingu í samfélaginu eða standa undir rekstri; nú eða fara bara út í einhvers konar einkarekstur og Keflavíkurflugvöllur var nefndur. Flugvöllurinn, sem er hliðið inn í landið, hlýtur alltaf að vera á ábyrgð ríkisins, sama hvernig á málið er horft. Þetta er eitthvað sem við höfum heyrt hjá fleiri hv. þingmönnum og hæstv. ráðherra ferðamála að undanförnu. Þessari hugmynd er greinilega verið að fleyta innan ríkisstjórnarinnar.

Hér er því stefna sem byggist á áframhaldandi aðhaldi, ónógri tekjuöflun en ábyrgðinni er vísað eitthvað annað. Frá ríkissjóði til einkaaðila, til lífeyrissjóða sem ekki munu koma að verkefnum á borð við rekstur heilbrigðiskerfisins.

Í umfjöllun fjármálaráðs, sem fjallaði um þessa stefnu og skilaði umsögn til fjárlaganefndar, kemur fram að það sé ýmislegt sem þurfi að skoða betur þegar kemur að þessari stefnu, til að mynda taki hagspáin sem stefnan byggi á ekki nægjanlegt tillit til áhrifa af hagstjórninni sem hlýst af stefnunni. Þetta er grundvallaratriði, frú forseti. Hvaða hagstjórnaráhrif mun þessi ríkisfjármálaáætlun hafa með því aðhaldi sem þarna er boðað, og ónógri tekjuöflun? Sú greining fylgir ekki. Þetta er áætlun til fimm ára, frú forseti.

Hér er líka bent á að undirliggjandi afkoma og raunverulegt aðhaldsstig sé í raun og veru óljóst. Þetta kemur fram í umsögn fjármálaráðs. Því þar skorti frekari sundurliðun, upplýsingar um sértækar tekju- og útgjaldaaðgerðir og leiðréttingu fyrir áhrifum hagsveiflunnar. Fjármálaráð setur fram þau varnaðarorð að stjórnvöld geti lent í spennitreyju fjármálastefnunnar ef atburðarásin reynist önnur en spár gera ráð fyrir. Í allri þessari fljótaskrift er efnahagsnefnd Alþingis ekki einu sinni gefinn tími til að skoða efnahagsforsendur.

Ég sagði áðan að hugsanlega væri hér um einhvers konar byrjunarörðugleika að ræða. Ég held að það séu mjög mikilvæg atriði sem kom fram í umsögn fjármálaráðs. Ég nefni sérstaklega, með leyfi forseta, að á bls. 7 í umsögn ráðsins er bent á að ekki gangi að „niðurnjörva alla liði fjármálastefnunnar“ því að slík geirnegling markmiða geti leitt til þess að stjórnvöld festist í atburðarás þar sem þau fái ekki rönd við reist ef þróun efnahagsmála reynist önnur en ráð var fyrir gert. Enn fremur kemur fram í þeirri umsögn að það samræmist hvorki grunngildum um stöðugleika, festu né varfærni.

Hv. þm. Oddný Harðardóttir sagði hér áðan að hún hefði verulegar áhyggjur af því að ekki væri tekið tillit til athugasemda fjármálaráðs við afgreiðslu stefnunnar. Ég tek undir það. Við sjáum fram á það að verið er að auka stórkostlega miðstýringu í fjármálum hins opinbera og setja mjög stífan hagstjórnarlegan ramma sem er pólitískur í sjálfu sér. Það var þess vegna sem við þingmenn Vinstri grænna lögðumst gegn löggjöfinni á sínum tíma. Okkur fannst ekki rétt að slík pólitísk kennisetning í hagstjórn væri sett inn í lög, heldur væri það hverrar ríkisstjórnar að ákveða þá pólitík.

Nú hefði hæstv. fjármálaráðherra í sjálfu sér getað lagt fram slík markmið sem sína pólitísku kennisetningu en enn fremur er búið að binda þau í lög, sem mér finnst varhugaverð þróun. Stjórnvöld bæta um betur með því að bæta við enn einu skilyrðinu, um útgjaldaþakið, sem gerir spennitreyjuna enn óþægilegri hvað starfsemi ríkisins varðar. Þetta skilur meiri hluti fjárlaganefndar. Þess vegna segja menn: Já, heyrðu, þetta mun reynast okkur erfitt og þess vegna leitum við samstarfs við lífeyrissjóði og aðra stofnfjárfesta um að taka að sér þau verkefni sem eru verkefni samfélagsins, sem eru þau verkefni sem Alþingi á að vera að ræða, sem stjórnmálaflokkarnir eiga að vera að ræða; sömu stjórnmálaflokkar og töluðu mjög skýrt fyrir kosningar um sýn í þeim málum ættu að vera að leggja fram þá sýn núna og útskýra fyrir almenningi í landinu hvernig ríkisfjármálastefna til fimm ára samrýmast þeirri uppbyggingu sem þessir sömu stjórnmálaflokkar vilja ráðast í. Því að innan þessa ramma verður ekki ráðist í þá uppbyggingu. Það verður ekki ráðist í þá tekjuöflun sem þarf til að standa við þá uppbyggingu. Þessi ríkisfjármálastefna boðar ekkert annað en hefðbundna hægri sinnaða aðhaldspólitík þar sem ætlunin er að gera sem minnst. Meira að segja er sett aukaþak á útgjöld ofan á þau skilyrði sem eru í lögum um opinber fjármál. Og svo kemur meiri hlutinn og segir: En við sjáum að það þarf að gera ýmislegt og við ætlum að fá einkaaðila og lífeyrissjóði til að gera það. Ekki aðeins er þetta plagg hefðbundið hægri sinnað aðhaldsplagg, það er líka verið að boða aukna einkavæðingu og ég velti fyrir mér hvort allir hv. þingmenn hafi áttað sig á því.

Þetta er nefnilega hápólitísk stefna sem hér er lögð fram. Ég á lítinn tíma eftir en verð þó að nýta hann í það sem kemur líka fram í nefndaráliti meiri hlutans um einn af veigamestu óvissuliðunum á tímabilinu í ljósi þess að stefnan tengist sölu eigna ríkissjóðs í viðskiptabönkunum. Miðað við bókfært verð, sem kemur hér fram, nemur hlutur ríkissjóðs í stóru viðskiptabönkunum um 450 milljörðum kr. Og hér er vitnað til þess að niðurgreiðsla á skuldum, sem er lykilþema í allri þessari stefnu, muni að miklu leyti ráðast af því hvernig til takist með sölu þeirra eigna. Síðan er rætt um þá vinnu sem standi yfir í efnahags- og viðskiptanefnd um að marka ramma um hámarkshlut einstakra eigenda. Það hefur raunar komið fram í vinnu efnahags- og viðskiptanefndar að Íslandi er afar þröngur stakkur sniðinn með að marka stefnu um dreift eignarhald því að það samræmist ekki EES-samningnum og því fjármálaregluverki sem við erum aðilar að innan þess. Þess vegna hlýt ég að spyrja: Hversu ábyrgt er það að birta hér eigendastefnu fyrir fjármálafyrirtæki þar sem boðuð er sala á öllum eignarhlutum ríkisins utan 30–40% hlutar í Landsbankanum, leggja fram ríkisfjármálastefnu þar sem sala á eignarhlutum í bönkum er lykilatriði til þess að hægt verði að niðurgreiða skuldir á sama tíma og við vitum mætavel að það er ekkert gamanmál að standa að bankasölu í því efnahagsumhverfi sem er í dag. Nægir þar að nefna þau viðskipti sem við höfum verið að ræða hvað mest hér að undanförnu. Nægir þar að hlusta eftir ábendingum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem bendir Alþingi og stjórnvöldum á (Forseti hringir.) að ganga þurfi hægt um gleðinnar dyr og betra sé að bíða eftir góðum eiganda en að ráðast í brunaútsölu á eignarhlutum ríkisins í bönkum.

Frú forseti. Ég biðst afsökunar á að fara fram yfir tímann. Inntak þessarar stefnu er hægri sinnað, íhaldssamt og aðhaldssamt. Það er boðaður einkarekstur að auki og það skortir umræðu hér á vettvangi þingsins um þetta stefnumótandi plagg. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)