146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[20:13]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir góða spurningu hvað varðar vinnulag þingsins. Ég átta mig á að ríkisstjórnin tók við á óvenjulegum tíma og setur þar af leiðandi fram fjármálastefnu á óvenjulegum tíma. Það sem mín orð snerust um er kannski fremur umgjörðin um þessa vinnu. Ég spyr í minni ræðu: Er ekki eðlilegt að huga að því að sett verði upp stofnun í kringum fjármálaráðið, einhvers konar þjóðhagsstofnun, sem hafi það hlutverk eins og áður var að meta horfurnar fram undan þannig að fjármálastefnan geti virkað eins og sá póll sem henni er ætlað að vera á móti peningastefnunni sem hefur í raun miklu öflugra bakland í kerfinu þegar horft er til þess hvernig hún er unnin. Ég tel að þetta sé til að mynda eitt lykilatriði sem hefði þurft að hafa í huga.

Þegar kemur að aðkomu þingsins snýst hún ekki bara um tíma heldur vinnulag. Ég geri athugasemd við það að efnahags- og viðskiptanefnd hafi fengið þetta mál mjög seint til umfjöllunar með þeim orðum að það þyrfti að afgreiða það. Það er ekki hæstv. fjármálaráðherra að kenna að við þyrftum að afgreiða málið á einum degi. Það var ekki gerlegt. Þú ferð ekki yfir þjóðhagsforsendur á einhverjum einum fundi efnahags- og viðskiptanefndar. Þetta ferli verður auðvitað að teikna upp áður en lagt er af stað þannig að allar nefndir þingsins séu meðvitaðar um sitt hlutverk. Mér finnst það umhugsunarefni og eftir að hafa lesið umsögn fjármálaráðsins hefði ég talið að við hefðum þurft, a.m.k. á vettvangi minnar nefndar, efnahagsnefndar, meiri tíma til að fara yfir og átta okkur á hvaða stofnanastrúktúrs sé þörf þannig að við getum innleitt þetta mál. Af hverju er þetta mikilvægt? Jú, við þurfum að gæta að jafnvæginu milli miðstýringarinnar sem getur skilað okkur markvissari framkvæmd fjárlaga og fjárlagagerðar, getum við sagt, og síðan lýðræðislegra sjónarmiða.

Ég tek seinna atriðið í seinna andsvari, frú forseti.