146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[20:15]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V) (andsvar):

Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég vil taka undir með þingmanni að ég held að það sé mikilvægt að hér séu sjálfstæðir ráðgjafar og ég finn til þess núna í vinnu minni í fjármála- og efnahagsráðuneytinu að okkur vantar betri þjóðhagslíkön bæði fyrir ráðuneytin og auðvitað fyrir stofnanir Alþingis. Það er mjög mikilvægt að við höfum aðgang að slíkum líkönum.

Ég vil aðeins fara út í það sem hér var talað um, afganginn og þetta þak upp á 41,5% sem margir hv. þingmenn hafa nefnt. Ég nefndi að með því að lækka vextina og minnka aðhaldið á tímabilinu erum við í raun að skapa svigrúm upp á 2% af vergri landsframleiðslu. Miðað við þá spá sem er í þjóðhagslíkaninu sem lagt er til grundvallar eru þetta 66 milljarðar króna sem eru býsna miklir peningar.