146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[20:25]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Nú sit ég ekki í fjárlaganefnd og er viss um að fjárlaganefnd hefur gert sitt besta til að fara eins vel yfir málið á stuttum tíma og hægt er. Ég efast ekki um það. En ég heyri bæði á ræðum þingmanna meiri hlutans og les út úr nefndaráliti meiri hlutans að það er ýmsum spurningum ósvarað, væntanlega vegna tímaskorts. Ég nefndi nokkrar af athugasemdum fjármálaráðs í ræðu minni. Hér hefur verið talsvert rætt um niðurgreiðslu skulda og ég nefni líka það sem segir í athugasemdum fjármálaráðs að sú stefna þurfi að vera varfærin svo hún reynist ekki of þungbær í framkvæmd, skaði ekki sjálfbærni samfélagsins eða komi því úr jafnvægi og ekki liggi fyrir sundurliðaðar upplýsingar um það að hversu miklu leyti þessi niðurgreiðsla skulda sem gert er ráð fyrir verði fjármögnuð með einskiptistekjum. Svo segir: Ítarlegri greining á þessu myndi nú hjálpa okkur við að átta okkur á hvort stefnan uppfylli grunngildi.

Þetta eru risastórar spurningar. Meiri hlutinn víkur að þessu í áliti sínu en viðurkennir um leið að ýmsum spurningum sé ósvarað og mikil óvissa. Það er það sem mér finnst svo alvarlegt, við erum að tala um stefnu til fimm ára, ég heyri þingmenn meiri hlutans tala um að það þyrfti að liggja fyrir (Forseti hringir.) fjárfestingarstefna, uppbyggingarstefna, miklu meiri tími til að skoða þetta. Af hverju er þetta svona, frú forseti? (Forseti hringir.) Á þingið bara að sætta sig við þetta?