146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[20:28]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hefði auðvitað þurft helmingi meiri tíma. Það eru það margar athugasemdir í umsögn fjármálaráðs, sem mér finnast mjög veigamiklar, sem mér finnst ekki tekið tillit til í nefndaráliti meiri hlutans.

Það kemur hins vegar fram í nefndaráliti meiri hlutans sem ég hef lesið að þar leggur meiri hlutinn til að stefnan sé samþykkt óbreytt, enda brýnt að afgreiða þingsályktun um fjármálastefnu áður en kemur að umfjöllun um fjármálaáætlun fyrir sama tímabil til þess að umræður um ramma einstakra málefnasviða hafi ekki áhrif á heildarfjármál hins opinbera.

Hvað segir þetta okkur um pólitískan skilning meiri hlutans á plagginu? Jú, þetta er plaggið sem má ekki breyta nema það verði hamfarir. Þegar Alþingi fer svo að ræða sundurliðaða fjármálaáætlun eftir málaflokkum má það ekki hafa áhrif á heildarafkomu hins opinbera. Svigrúmið sem þá er verið að veita Alþingi eftir að þessi stefna hefur verið samþykkt óbreytt er algerlega límt inn. Það er hugsanlega hægt að færa á milli málaflokka en ekki hægt að auka við.

Þess vegna leggur meiri hlutinn til að þetta sé samþykkt óbreytt því það er pólitískt markmið að auka ekki ríkisútgjöld, styrkja ekki tekjustofna ríkisins.

Umræðan um þetta mál er nefnilega tvíþætt. Annars vegar snýst hún um vinnubrögð og almenna umgjörð þess hvernig við erum að innleiða breytta stefnumótun en hins vegar um pólitískt inntak. Það sem meiri hluti fjárlaganefndar er að segja, er: Það er nú mjög margt óvíst um þetta allt saman, og heldur betur, búnar að koma fram ýmsar athugasemdir, en okkur liggur á að afgreiða þetta svo það verði örugglega ekki aukning á neinu í fjármálaáætluninni, að Alþingi fari nú ekki að taka upp á því að samþykkja aukningu til einhverra mikilvægra málaflokka þegar rennur upp fyrir fólki að það er búið að samþykkja hér (Forseti hringir.) útgjaldaþak til fimm ára og binda hendur Alþingis. Um það snýst þetta mál.