146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[20:33]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Forseti. Fyrir hvern er fjármálastefna? Hún er fyrir almenning. Spurningin hlýtur að snúast um það hvaða áhrif hún hefur á þennan almenning. Ég sit hvorki í fjárlaganefnd né efnahags- og viðskiptanefnd og hér hafa verið rædd ýmis tæknileg mál sem ég viðurkenni að ég fóta mig varla í, en þó held ég að ég skilji kjarnann. Við umræðu um svona stefnu verður ekkert hjá því komist að setja hlutina í samhengi og ræða í hvaða andrúmi og hvenær hún er sett fram. Ég tók eftir því að hæstv. fjármálaráðherra kom í umræðuna áðan og talaði um að á þessum tímum sögulegs hagvaxtar þyrftum við að sýna aðhald. Af því ég veit að hæstv. fjármálaráðherra er rithöfundur og skáld og þekkir bókmenntasöguna og kann söguna um Dr. Jekyll og Mr. Hyde, þá spyr ég mig hvort það geti verið einhver samsvörun hér, vegna þess að annar þeirra birtist mér núna sem fjármálaráðherra, en hinn birtist mér í kosningabaráttunni í Norðausturlandskjördæmi í haust. Fyrir kosningar þá hrópaði almenningur nefnilega á uppbyggingu heilbrigðis- og velferðarkerfis, menntastofnana, samgöngumannvirkja og annarra innviða, raunar af þvílíkum krafti að allir flokkarnir lofuðu að ráðast í þær. Það var í raun ósköp eðlilegt vegna þess að jafnvel eftir að fór að létta undir fæti í efnahagslífinu eftir tiltekt ríkisstjórnarinnar 2009–2013, þá hafa innviðirnir verið látnir drabbast niður.

Það hefur líka verið kallað eftir áformum um að mæta vanda ungs fólks sem ekki á húsnæði sem og leigjenda. Þetta fólk er að festast dýpra og dýpra í fátæktargildru leigumarkaðarins.

10. október sl. var til að mynda samþykkt metnaðarfull en mjög þörf samgönguáætlun sem var svo jafnharðan skotin í kaf af starfsstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks sem fann ekki leiðir til að fjármagna hana. Þá stefnu gleyptu Björt framtíð og Viðreisn hráa til þess að hreiðra um sig í einhverjum nokkrum ráðuneytum. Við birtingu stjórnarsáttmálans kom svo í ljós að það átti enn frekar að ganga á bak orðanna því engin tilraun var gerð til að afla tekna hjá þeim sem voru aflögufærir. Millitekjuþrepið var lagt niður og menn nýta ekki aðra tekjustofna svo sem hátekjuskatt, auðlegðarskatt, stigvaxandi fjármagnstekjuskatt, aukin auðlindagjöld af sjávarútvegi, raforku eða ferðamannaiðnaðinum. Þá eru engin skýr áform uppi um hvernig eigi að bregðast við afleiðingum ofvaxtar ferðaþjónustunnar, hvorki þeirri miklu gengisstyrkingu sem hún ber sína ábyrgð á né þeirri uppbyggingu vega og annarra innviða sem ferðamenn nota. Raunar er greinin farin að stíga á tær annarra atvinnugreina og núna veitum við 20 milljarða króna skattafslátt eins og fram kemur í fjárlagafrumvarpinu. Slíkur styrkur væri, frú forseti, ósköp skiljanlegur þegar um væri að ræða aðstoð við veikburða en mjög mikilvæga atvinnugrein, en varla réttlætanlegur nú við þessi skilyrði. Þó erum við komin í það ástand að það er líka erfitt að fara að setja meiri álögur á greinina vegna þess að gengið er svo hátt.

Frú forseti. Það er hægt að flytja fjöll fyrir 20 milljarða Við gætum endurreist heilbrigðiskerfið, gert háskólana samkeppnishæfa. Við gætum lagt grunn að félagslegum lausnum á húsnæðismarkaði, svo mætti lengi áfram telja. Eina sem okkur vantar núna í augnablikinu eru stjórnvöld sem eru nógu víðsýn og hugrökk til að ráðast í slíka uppbyggingu.

Tvennt vekur einkum athygli við fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar. Annars vegar gerir hún varla ráð fyrir að flokkarnir geti staðið við loforð sín frá því í kosningum og hins vegar teiknar hún upp að þessir tveir flokkar sem starfa með Sjálfstæðisflokknum eru ósköp venjulegir hægri flokkar. Á þessum 80 dögum sem liðnir eru frá kosningum hefur gríman nefnilega ekki aðeins verið felld, henni hefur verið kastað út í ruslagám. Þótt það sé út af fyrir sig heiðarlegra að gera það bara og koma hreint fram þá verður mjög forvitnilegt að sjá hvort menn seilist í hana aftur og reyni að setja hana á andlitið fyrir næstu kosningar. Þessi svik verða svo væntanlega endanlega staðfest núna á föstudaginn, daginn fyrir 1. apríl. Þá getur vel verið að stóra aprílgabbið í ár verði að flokkarnir ætli alls ekkert að standa við þau loforð sem þeir gáfu í haust.

Þó að fjármálastefnan sé almennt orðað skjal með mismunandi markmiðum þá birtist skýrt í henni hvers konar samfélag ríkisstjórnarflokkar á hverjum tíma ætla að byggja. Núna virðist menn ætla að fórna öllu til að þurfa ekki að ráðast í frekari skattheimtu. Fjármálastefnan ætti auðvitað að vera þannig úr gerði gerð að hún rúmaði annars vegar þá nauðsynlegu uppbyggingu sem brýnt er að ráðast í og allir flokkar lofuðu fyrir kosningar, en hins vegar ætti hún að vera nógu sveigjanleg til að gera stjórnvöldum kleift að bregðast við breytingum sem kunna að verða á þjóðarbúskapnum. Reynslan hefur nefnilega sýnt okkur og kennt okkur að eftir feit ár koma mögur ár og þessar sveiflur hafa gjarnan verið á sjö til átta fresti. En þessi fjármálastefna gerir hvorugt. Það kemur einna skýrast fram í þeirri útgjaldareglu sem hér hefur verið mikið rædd. Hún felur það nefnilega í sér að ríkisútgjöld mega ekki vera meira en tiltekið hlutfall af landsframleiðslu, hlutfall ríkisútgjalda fyrir árið 2017 er áætlað 41,5% af landsframleiðslu. Við vitum úr fjárlagavinnunni að útgjöld þurfa að aukast. Hvað ákveður þessi hægri stjórn að gera? Hún samþykkir að útgjöld megi aðeins aukast um 0,5% af landsframleiðslu umfram það sem spár gera ráð fyrir. Það er óskynsamlegt og beinlínis hættulegt að festa útgjaldareglu í fjármálastefnu sem ekki gerir ráð fyrir að aðstæður breytist í efnahagslífinu.

Hér hefur líka komið fram að sveitarfélögin falla undir þessa reglu. Hvernig í ósköpunum eiga sveitarfélögin í landinu að skila afgangi á næstu árum? Það hefur líka komið hér fram að skuldahlutfall þeirra hefur vissulega lækkað, en það er vitlaust gefið í skiptingu tekna milli ríkis og sveitarfélaga. Sveitarfélög inna af hendi mikla þjónustu sem ríkið greiðir ekki að fullu fyrir, ég get þar nefnt öldrunarheimilin og sjúkraflutninga, þannig að ég get ekki séð að sveitarfélögin muni skila afgangi. Samkvæmt því sem hér hefur komið fram mun það bara falla á ríkið að standa undir því. Auðvitað þurfa sveitarfélögin að fá meiri tekjur af þeirri gjaldtöku sem vonandi er fyrirhuguð t.d. af ferðamönnum.

Ef samdráttur verður á tímabilinu þá mun útgjaldareglan leiða svo til þess að ekkert svigrúm verði til uppbyggingar á innviðum samfélagsins og þá fer niðurskurðarhnífurinn á loft. Öll heilbrigð skynsemi myndi einmitt gera ráð fyrir að aukin aðkoma ríkissjóðs væri við slíkar aðstæður á meðan hin góðu ár væru notuð til að safna auknum afgangi.

Frú forseti. Þá vekur athygli að það er lítið sem ekkert gert með alvarlegar aðfinnslur fjármálaráðs. Það ráð er þó skipað af fjármálaráðherra, í þessu tilfelli núverandi forsætisráðherra, skipstjóranum í brúnni. Til upplýsingar um ráðið segir á heimasíðu ráðuneytisins, með leyfi forseta:

„Ráðið er sjálfstætt og er því ætlað að leggja mat á hvort fjármálastefna og fjármálaáætlun, sem ríkisstjórn leggur fyrir Alþingi, fylgi þeim grunngildum sem lögin segja að stefnumörkun í opinberum fjármálum skuli byggð á, en þau eru sjálfbærni, varfærni, stöðugleiki, festa og gagnsæi.“

Það er heldur ekkert rökstutt í meirihlutaálitinu af hverju þessum aðfinnslum er ekkert ansað. Manni hefði þó fundist að það væri lágmarkið að reyna að hrekja þau sjónarmið sem koma fram sem gagnrýni á stefnuna.

Það er skemmst frá því að segja að þessi öryggisventill ríkisstjórnarinnar, þ.e. fjármálaráðið, setur sérstaklega út á að útgjaldareglan taki ekki mið af hagsveifluleiðréttingu. Væri það gert er ljóst að áætlaður afgangur af opinberum fjármálum ætti að vera meiri. Af umsögn fjármálaráðs er ljóst að afla þarf aukinna tekna núna og auka svigrúm fyrir ríkisútgjöld ef skóinn kreppir að, annars verður velferðarkerfið fórnarlamb niðurskurðar ef aðstæður breytast í hagkerfinu og stjórnvöld lenda í spennitreyju fjármálastefnunnar, eins og segir held ég nánast orðrétt í umsögninni. Þetta er því með öllu óásættanlegt og því leggur Samfylkingin til, eins og kemur fram í áliti 3. minni hluta, að þessi útgjaldaregla verði felld úr stefnunni þannig að stjórnvöld geti sett sér útgjaldamarkmið á hverju ári þegar fjármálaáætlun hefur verið samþykkt.

Fjármálaáætlun er gríðarlega mikilvægt plagg. Þetta er stefna ríkisstjórnarinnar út kjörtímabilið og fjárlög verða að taka mið af henni. Það er ekki heimilt að víkja frá henni nema stórkostlegar hamfarir ríði yfir samfélagið eða þjóðarbúið. Þess vegna verða þingmenn stjórnarmeirihlutans að vakna og taka a.m.k. þátt í umræðu um þennan hlut.

Það eru líka vonbrigði að í tillögu ríkisstjórnarinnar og meiri hluta fjárlaganefndar er í engu brugðist við skýrum athugasemdum fjármálaráðs um að marka þurfi ferðaþjónustunni skýrari ramma og afla þurfi frekari tekna frá hinum sívaxandi fjölda ferðamanna. Í því ljósi verður 20 milljarða kr. skattafsláttur sem ég nefndi áðan enn þá skrýtnari.

Frú forseti. Að mati Samfylkingarinnar er þörf á meiri fjárfestingu í heilbrigðis- og menntakerfinu og sérstaklega þarf að huga að því að bæta kjör barnafjölskyldna, leigjenda, fyrstu kaupenda húsnæðis, aldraðra og öryrkja. Allt of margir í þessum hópi búa við kröpp kjör. Auðvelt er að fjármagna þessi brýnu verkefni með því að auka tekjur ríkisins af auðlindum, með því að innheimta hærri veiðigjöld eða bjóða út kvóta og auka tekjur af þeim ferðamönnum sem koma til Íslands af áður óþekktum fjölda og innheimta meiri tekjur af stórnotendum raforku og auka jöfnunarhlutverk skattkerfisins. Það er kannski það sem hefur algjörlega verið vanrækt, það er að nýta skattkerfið til þess að jafna kjör fólksins í landinu.

Frú forseti. Farsæl þróun samfélagsins byggist ekki síst á ró á vinnumarkaðnum. Efnahagslegur stöðugleiki er mjög mikilvægur, en það er ekki nægjanlegt. Félagslegur stöðugleiki er undirstaða þess að hér þróist áfram friðsælt, réttlátt og framfarasinnað samfélag. Því miður hjó síðasta ríkisstjórn í þann stöðugleika með því að veikja tekjustofna, lækka vaxta- og barnabætur og bregðast ekki við þeim fyrirsjáanlega vanda sem var að skapast á húsnæðismarkaðnum. Ríkisstjórnin virðist ætla að festa þennan óstöðugleika í sessi. Hún ætlar ekki að nýta tækifærin sem felast í núverandi uppgangi til að bæta kerfin sem við treystum á.

Nú upplifum við mesta hagvöxt í hinum vestræna heimi, en hann má ekki fara bara til þeirra sem best standa. Um það verður aldrei sátt. Nú verðum við að fara að græða sár eftirhrunsáranna og það þarf sérstaklega að horfa á ungt fólk og leigjendur sem njóta ekki mikilla hækkana á fasteigna- og leiguverði. Mikið af þessu fólki býr við þrengsta kostinn og má illa við auknum útgjöldum. Lífeyrir hefur hækkað miklu minna en húsnæðiskostnaður og það setur líka mjög margt fólk í vanda. Ekkert sem komið hefur frá ríkisstjórninni bendir til þess að það eigi að mæta þessum hópum. Við getum sótt inn nýjar tekjur í ríkissjóð. Það eigum við að gera. Við þurfum að leggja grunn að félagslegum stöðugleika, en þær aðgerðir sem boðaðar hafa verið þær duga skammt.

Frú forseti. Ísland er í sóknarfærum til að nýta einstakt árferði sem er til komið vegna velheppnaðrar úrvinnslu í efnahagsmálum í kjölfar hrunsins, makrílgöngu og stóraukinna heimsókna ferðamanna. Það hefur lagt grunninn að þeirri velgengni sem við búum við í dag. Við eigum að geta byggt upp farsælt og friðsælt samfélag sem er eftirsóknarvert að búa í. Þá væri auðvitað skynsamlegast að byggja á hinu norræna velferðarmódeli sem er kannski það líkan í sögunni sem reynst hefur best. Það byggir, frú forseti, á þremur stoðum; stöðugri efnahagsstjórn, þríhliða vinnumarkaðsmódeli launþega, atvinnurekenda og ríkisins, en ekki síst öflugu velferðarkerfi sem tryggir þennan margumtalaða félagslega stöðugleika. Því miður virðist ríkisstjórnin ekki hafa framsýni eða kjark til að stefna þangað. Það er sorglegt.