146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[20:56]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum svarið. Það er akkúrat það sem ég er að hugsa. Ef við verðum ekki búin að loka stefnunni og sjáum að áætlunin gerir ekki það sem við teljum að hún eigi að gera þá getum við hugsanlega horft á stefnuna og sagt: Þetta gengur ekki — í staðinn fyrir að við lokum okkur inni með hana. Það er það sem ég er að meina og ég hef áhyggjur af því, ég vil ekki að það gerist. Samneyslan er í lágmarki. Við þekkjum það. Hún hefur verið mjög lág undanfarið þrátt fyrir góðæri. Ráðherrann segir hér í ræðu sinni, og það er tekið fram í greinargerðinni, að reksturinn sé í járnum ef tillit sé tekið til hagsveiflunnar. Hann sagði líka í ræðu sinni að það vantaði um það bil 5 milljarða til að ná markmiði um niðurgreiðsluna. Ég get ekki skilið þetta öðruvísi en svo að hér sé verið að boða samdrátt og það sé verið að boða einhvers konar einkavæðingu. Því eins og þingmaðurinn kom inn á, og við höfum rætt hér áður, er ekki gert ráð fyrir neinni tekjuöflun neins staðar. Það getur því ekki boðað neitt annað en samdrátt.