146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[21:07]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Það er ekki ætlun mín að lengja umræðuna sérstaklega mikið. Það er þó nauðsynlegt að eiga góða umræðu um þetta mál, svo sem tillögu til þingsályktunar um fjármálastefnu fyrir árin 2017–2022.

Það sem kemur mér kannski helst á óvart við fjármálastefnuna er hvað hún er þunn. Þetta eru níu blaðsíður á meðan álitsgjöf fjármálaráðs um tillögu til þingsályktunar um fjármálastefnu fyrir árin 2017–2022 er 27 blaðsíður. Mér þykir í raun alveg ótrúlegt að á þeim 27 blaðsíðum sem fjármálaráð náði að berja saman, með nokkrum ábendingum og þar fram eftir götunum, jafnvel ábendingum um ákveðið misræmi sem gætir á þessum níu blaðsíðum hérna, að meiri hlutanum þyki ekki ástæða til að leggja smá vinnu í að koma einhverjum breytingum í gegn.

Með leyfi forseta segir hér orðrétt:

„Meiri hlutinn leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.“

Mér þykir það svolítið lýsandi fyrir það meirihlutaverklag og meirihlutaræði sem svifið hefur yfir vötnum, einkum eftir síðasta kjörtímabil, þar sem hlutirnir koma fullunnir úr ráðuneytunum og við erum bara stimpilþjónusta. Það er aldrei tekið neitt mark á þeirri vinnu, þeim umsögnum eða þeim ábendingum sem lagðar eru fram til að gera hlutina betri. Mér finnst það mjög leiðinlegt. Við erum að reyna að stunda einhverja samvinnu- og samræðupólitík og ég veit ekki hvað. Mér þykir það svolítið sorglegt að engar breytingartillögur séu gerðar við jafn veigamikið plagg og tillögu til þingsályktunar um fjármálastefnu fyrir árin 2017–2022, það virðist ekki skipta máli.

Á bls. 21 í álitsgerð fjármálaráðs um tillögu til þingsályktunar um fjármálastefnu er bent á lítilsháttar misræmi milli greinargerðarinnar og stefnunnar, með leyfi forseta:

„Í greinargerðinni er lækkun skuldahlutfallsins reiknuð frá árslokum 2016 og yfir sex ára tímabil á meðan stefnan sjálf miðar við fimm ára tímabil frá árinu 2017.“

Það er ekki stórvægilegt en það þótti ekki einu sinni ástæða til að leiðrétta það.

Mig langar að taka undir það sem fjármálaráð bendir á; til þess að bæði fjármálaráð og Alþingi geti sinnt hlutverki sínu eins og lög kveða á um er nauðsynlegt að hafa aðgang, ekki einungis að forsendum og niðurstöðum fjármálastefnu á hverjum tíma heldur líka forsendum og ferli stefnumörkunar. Það vantar kjöt á beinin. Það er ekkert hérna sem hægt er að kalla stefnu þannig lagað séð. Það er voðalega þunnur þrettándi sem kemur frá ráðuneytinu og virðist ekki vera mikill vilji hjá meiri hlutanum til að bæta einhverju við.

Það eru nokkur gagnrýnisatriði frá fjármálaráði sem hægt hefði verið að taka tillit til, en ekki þykir ástæða til þess. Kannski er lítið gagn í að ræða það eitthvað frekar. Til dæmis segir fjármálaráð, með leyfi forseta:

„Þannig getur ítarleiki í framsetningu stefnu hjálpað til við gagnsæi en á sama tíma verður að taka tillit til þeirrar óvissu sem ríkir um framtíðina. Huga verður að því hvernig taka eigi tillit til óvissu í stefnumörkuninni. Fjármálaráð telur mikilvægt að stjórnvöld undirbúi sértækt áhættumat eða sviðsmyndir til að auka gagnsæi stefnunnar og undirbúa viðbrögð.“

Það er ekki hægt að segja að þessar níu blaðsíður hérna sýni fram á sviðsmyndir eða áhættumat eða því um líkt eins og fram kemur í þingsályktunartillögunni.

Eitt langar mig að benda á. Það er það sem fram kom í máli hv. formanns nefndarinnar, Haraldar Benediktssonar, og í meirihlutaáliti hv. fjárlaganefndar. Þar segir, með leyfi forseta:

„… einn af veigamestu óvissuliðunum á tímabilinu sem stefnan nær til tengist sölu eigna ríkissjóðs, einkum hlutdeildar í viðskiptabönkunum. […] Ljóst er að niðurgreiðsla á skuldum ríkisins ræðst að miklu leyti af því hvernig til tekst með sölu þessara eigna.“

Fram kom í máli hv. formanns nefndarinnar, Haraldar Benediktssonar, að grunnur allrar fjármálastefnunnar væri í raun sala bankanna. Fyrir viku síðan fór ég í óundirbúinn fyrirspurnatíma við hæstv. fjármálaráðherra þar sem fram kom að það væru „engin sérstök áform um sölu á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka og Landsbanka,“ svo ég vitni, með leyfi forseta, beint í þau orð sem hæstv. fjármálaráðherra lét falla hér í pontu. Vissulega er allur varinn hafður á. Ég er sammála því að það er margt sem huga þarf að þegar við íhugum að selja banka. En það skýtur svolítið skökku við að eina vikuna séu engin sérstök áform um að selja bankana og hæstv. fjármálaráðherra ítrekar í svari að það séu engin sérstök áform uppi á núna og segir: „… og ég hef sagt að það væri betra og farsælla fyrir þjóðina að þetta verði selt hægt.“

Við hæstv. fjármálaráðherra erum alveg sammála þar. En þegar orð og gjörðir fara ekki almennilega saman — þegar ég les meirihlutaálit hv. fjárlaganefndar liggur í raun fyrir áætlun um hvernig einkavæða eigi bankana. Ég hef ekkert á móti því. Ég tel að það sé alveg rétt að fara þurfi í ítarlega umræðu um framtíðarskipulag og svara spurningum eins og hvernig bankarnir verði best undir það búnir að fara í söluferli. Það er alveg rétt. En þá þarf það líka að koma skýrt fram. Er verið að fara að selja banka eða er ekki verið að fara að selja banka? Það er stór spurning og hápólitísk. Við höfum einfaldlega fengið misvísandi svör undanfarna viku. Við erum að reyna að búa til fjármálaáætlun sem gilda á að í fimm ár. Hlutur ríkissjóðs í viðskiptabönkunum er um 450 milljarðar. Við erum ekki að tala um einhverjar smáupphæðir heldur algeran burðarás í þeim áætlunum sem ríkið getur gert næstu fimm árin.

Ég verð að beina þessari spurningu aftur beint til hæstv. fjármálaráðherra: Eru einhver áform, sérstök eða ekki sérstök, alveg sama hversu langt þau náð, áform eða áætlanir um að selja hluti ríkisins í viðskiptabönkunum eða ekki? Samkvæmt meirihlutaálitinu er það ætlunin. Samkvæmt orðum hæstv. fjármálaráðherra er það ekki á borðinu, eftir því sem ég skildi best.

Mig langar að benda á annað, svo ég eyði nú ekki öllum tímanum í að tala um hvort við eigum að selja banka eða ekki þótt ég gæti það léttilega, en við þurfum að ræða umgjörðina um allt það batterí sem ný opinber fjármál eru. Við tökum þetta fyrirkomulag upp að hluta til að sænskri fyrirmynd. Það þýðir að við þurfum að eyða smátíma og fjármunum í að byggja upp stuðningsnet fyrir okkur þingmenn og okkur stjórnmálamenn og allt heila ríkisbatteríið til að geta framfylgt þessu fyrirkomulagi af einhverjum metnaði. Eins og fram kom í andsvari mínu áðan er Finanspolitiska rådets rapport frá 2016 181 blaðsíða að lengd, það er virkilega lagður metnaður lagður í skýrsluna. Finanspolitiska rådet er líka með heila heimasíðu þar sem það útskýrir störf sín. Við þurfum að fara að leggja meiri metnað í slíkt. Fjölmiðlar eiga að fjalla um það. Þetta er stórpólitískt mál, ekki eitthvert smámál, þetta er nokkuð sem á virkilega að taka tíma í að ræða og taka tillit til þegar kemur fram gagnrýni. Það er ekki að ástæðulausu sem bent er á eitthvað sem fara megi betur, eins og fjármálaráð bendir á, með leyfi forseta:

„Stjórnvöld geta lent í spennitreyju fjármálastefnunnar ef atburðarásin reynist önnur en spár gera ráð fyrir. Í stað punktmats fyrir afkomumarkmið væri heppilegra að nota hagsveifluleiðrétt bilmat.“

Það er hægt að lesa þetta allt saman á bls. 25 í umsögn fjármálaráðs.

Þetta er ekkert léttvægt plagg. Það er í raun hneyksli fyrir þingið að segja að fjármálastefnan sé svo fullkomið plagg, eingetið úr fjármálaráðuneytinu, svo mikið, fallegt og tilbúið í allt, að það þurfi ekki að gera hálfa breytingu í hv. fjárlaganefnd. Það verður bara að segjast eins og er.

Ég hefði viljað sjá eitthvert mark frá þinginu þegar kemur að þessari mikilvægu stefnu.

Þetta er það sem ég vildi koma á framfæri. Ég sé ekki ástæðu til að lengja mál mitt frekar. En stóra spurningin er: Á að selja eða á ekki að selja banka? Í öðru lagi: Við þurfum að leggja meiri metnað í þetta mál, búa til betra stuðningskerfi í kringum það. Og það er Alþingi sem á að leggja fram þessa ályktun. Þótt hún komi frá ráðherra þurfum við að setja okkar mark á hana.