146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[21:31]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er alltaf jafnvægislist, að reyna að finna út hversu miklu er hægt að eyða í innviði og hvernig eigi að afla tekna á móti. Ég held að það sé ekkert eitt rétt svar í þeim efnum. Það er vissulega gott að greiða niður skuldir en ástæðan fyrir því að við tökum lán er til að eiga smá sveigjanleika í núinu. Þetta snýst líka um að við þurfum líka að geta notið þess góðæris sem er í gangi núna.

Ég er alveg á því að það er brýn nauðsyn á að byggja upp innviði. Spítalarnir eru myglaðir, það liggur við að ekki sé hægt að keyra vegina á Vestfjörðum, húsnæðismarkaður fyrir ungt fólk er kominn í rugl og það má aldrei gera neitt, aldrei eyða nokkrum sköpuðum hlut í nokkurn skapaðan hlut. Þá spyr maður sig: Til hvers eru skattar? Ef skattar eru ekki til að þjóna samneyslunni (Forseti hringir.) er kannski ekki mikill tilgangur að taka skatta og gjöld. (Forseti hringir.) Það er alla vega hugmynd sem ég tel vera rétta.